Handbolti

Erlingur: Urðum að ná jafn­vægi í sóknar­leikinn

Einar Kárason skrifar
Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV.
Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV. vísir/vilhelm

„Það er alltaf skemmtilegt og gott að ná að sigra,“ sagði Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV eftir nauman sigur sinna manna á FH í Olís-deild karla í dag. 

„Þetta var hörkuleikur og við erum kátir með sigurinn.“

„Heilt yfir var varnarleikurinn ágætur og nokkuð þéttur. Sóknarlega vorum við kaflaskiptir. Það koma fínir kaflar en svo töpum við auðveldum boltum sem gaf þeim ódýr hraðaupphlaup. Við urðum að ná jafnvægi í sóknarleikinn sem tókst undir lokin sem kom okkur aftur inn í leikinn. Það er kannski það sem við vorum í mestum vandræðum með í dag.“

„Phil Döhler (markvörður FH) er frábær markvörður og hann var að loka á okkur, sérstaklega hornin. Gabríel (Martinez Róbertsson) kom svo með þrjú góð mörk í seinni hálfleiknum og Dagur (Arnarsson) með góð undirhandarskot þannig við náðum að rétta okkur af í sóknarleiknum.“

Mótið er ungt

Leikurinn í dag var annar leikur ÍBV í Olís-deildinni og fengu ungir leikmenn að sýna hvað í þeim býr.

„Þetta var fyrsti leikurinn hjá Andrési (Marel Sigurðssyni) og hann stóð sig frábærlega. Sérstaklega undir lokin, varnarlega. Hann hljóp vel til baka og kom í veg fyrir sendingu sem varð til að við náðum að tryggja okkur sigurinn.“

„Þetta er leikur tvö hjá okkur í mótinu þannig að það er ekkert óeðlilegt að þetta hiksti aðeins hjá okkur og við þurfum að bíða eftir fleiri leikjum til að átta okkur á stöðunni á liðinu en frammistaðan í dag heilt yfir góð hjá okkur,“ sagði Erlingur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×