Erlent

Hefja tökur í geimnum í næstu viku

Samúel Karl Ólason skrifar
Yulia Peresild, Anton Shkaplerov og Klim Shipenko eru stödd í Baikonur í Kasakstan.
Yulia Peresild, Anton Shkaplerov og Klim Shipenko eru stödd í Baikonur í Kasakstan. Roscosmos

Þriðjudaginn í næstu viku (5. október) veður geimfara, leikkonu og leikstjóra skotið út í geim frá Baikonur í Kasakstan. Þau munu svo koma sér fyrir í alþjóðlegu geimstöðinni og taka upp kvikmynd. Þá fyrstu sem tekin verður upp í geimnum.

Þau Yulia Peresild og Klim Shipenko munu taka upp hluta myndarinnar The Challenge um borð í geimstöðinni. Sú mynd mun fjalla um skurðlækni sem þarf að framkvæma skurðaðgerð á geimfara sem er of veikur til að verða sendur til jarðar.

Peresild og Shipenko munu svo snúa aftur til jarðar þann 17. október. Það gera þau á öðru Soyuz geimfari en notað verður til að flytja þau til geimstöðvarinnar og með geimfaranum Oleg Novitskiy. Hann er núna um borð í geimstöðinni og hefur verið frá því í apríl. Geimfarinn Anton Shkaplerov, sem fer með þeim Peresild og Shipenko út í geim í næstu viku, mun verða eftir um borð í geimstöðinni.

Eins og fram kemur í frétt Space.com stendur til að skjóta nokkrum borgurum til geimstöðvarinnar á næstu mánuðum.

Í desember munu Rússar skjóta japanska auðjöfrinum Yusaku Meazawa, Yozo Hirano og geimfaranum Alexander Misurkin til geimstöðvarinnar. Þeir munu sömuleiðis verja tólf dögum þar áður en þeir snúa aftur til jarðar.

Í apríl mun SpaceX skjóta fjórum einstaklingum til geimstöðvarinnar fyrir fyrirtækið Axiom. Þar um borð verða þrír ferðamenn og geimfarinn Michael Lópoez-Alegría, sem er yfir ferðinni fyrir Axiom.

Þetta er allt í kjölfar þess að SpaceX skaut nýverið fjórum geimförum á braut um jörðu, hærra en geimstöðin, þar sem þau voru í þrjá daga.

Sjá einnig: Vildi sýna að venjulegt fólk gæti farið út í geim

Einnig stóð til að skjóta Tom Cruise til geimstöðvarinnar í október en svo virðist sem ekkert verði af því. Hann ætlaði að taka upp kvikmynd um borð í geimstöðinni með leikstjóranum Doug Liman en engar frekari upplýsingar hafa verið veittar um verkefni í marga mánuði.

Sjá einnig: Nýmóðins geimkapphlaup: Keppast um að taka upp kvikmynd í geimnum

Geimfarar og geimvísindamenn Rússlands og Bandaríkjanna hafa í áratugi átt í góðu samstarfi og það þrátt fyrir að samskipti ríkjanna hefið versnað töluvert á því tímabili. Þau samskipti hafa sjaldan verið verri en nú og er samvinnu ríkjanna í geimnum að mestu að ljúka á næstu árum.

Rússar hafa gefið út að þeir ætli að hætta að taka þátt í starfsemi geimstöðvarinnar árið 2025 og stefna að smíði eigin geimstöðvar fyrir árið 2030. Þar að auki ætla þeir að byggja rannsóknarstöð á yfirborði tunglsins, í samstarfi við Kínverja.

Auk Rússlands og Bandaríkjanna hafa sextán önnur ríki komið að geimstöðinni, sem var skotið á loft árið 1998. Hún hefur verið heimili vel á þriðja hundrað geimfara frá nítján ríkjum frá árinu 2000, þegar fyrstu geimfararnir komu sér þar fyrir.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.