Sport

Simone Biles: Ég átti að hætta fyrir Ólympíuleikana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Simone Biles var ein af þeim fimleikakonum sem áttu mjög erfitt eftir áralanga misnotkun læknis bandaríska fimleikalandsliðsins.
Simone Biles var ein af þeim fimleikakonum sem áttu mjög erfitt eftir áralanga misnotkun læknis bandaríska fimleikalandsliðsins. AP/Saul Loeb

Fimleikakonan Simone Biles hefur viðurkennt að það hafi verið mistök hjá sér að mæta til leiks á Ólympíuleikana í Tókýó.

Biles ræddi málin við blaðamann New York Magazine en hún hætti við keppni í fimm af sex úrslitum sínum á leikunum.

Ákvörðun Biles vakti mikla athygli á mikilvægi þess að huga að andlegri heilsu íþróttafólks.

Gríðarlegar væntingar voru gerðar til Biles á leikunum en hún er ein af bestu fimleikakonum allra tíma.

„Ég hefði aldrei átt að vera með í þessum Ólympíuliði eftir allt það sem ég hafði gengið í gegnum undanfarin sjö ár,“ sagði hin 24 ára gamla Simone Biles í viðtalinu við New York Magazine.

Biles segir að Larry Nassar og misnotkun hans hafi haft mikil áhrif á hana andlega. Nassar var læknir bandaríska fimleikasambandsins en var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að misnota fjölda fimleikastelpna.

„Þetta var bara of mikið fyrir mig en ég var að reyna að láta hann ekki taka eitthvað af mér sem ég hafði unnið að síðan ég var sex ára gömul,“ sagði Biles en hún hefur unnið nítján heimsmeistaratitla á ferlinum.

„Ég ætlaði ekki að láta hann ræna frá mér gleðinni. Ég ýtti því fortíðinni á undan mér eins lengi og hugurinn og líkaminn leyfði mér það,“ sagði Biles.

Biles átti að bæta við fleiri gullverðlaunum á leikunum í Tókýó en hún vann fern gullverðlaun á leikunum í Ríó 2016.

„Eftir sem leikarnir nálguðust þá varð ég alltaf stressaðri og stressaðri. Ég hafði ekki eins mikið sjálfstraust eins og allar þessar æfingar hefðu vanalega skilað mér,“ sagði Biles.

Biles sagði líka að litarháttur hennar kallaði á meiri pressu og meira álag.

„Ég sem svört kona veit að við þurfum alltaf að gera meira því þrátt fyrir að við bætum met og annað þá er alltaf dregið úr því eins og það sé bara eðlilegasta mál hjá okkur,“ sagði Biles.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.