Skoðun

Kæri Bjarni. Opnaðu augun!

Alma Björk Ástþórsdóttir skrifar

Hver vill sjá fólk í ríkisstjórn sem lítur í hina áttina þegar fólkið í landinu bendir á vanrækslu eða ofbeldi á börnum, sjúklingum, fötluðum og eldra fólki?

Fyrir utan biðlistana munu kosningarnar snúast um allt annað og meira en það sem þú nefnir í pistli þínum. Í grunninn munu þessar kosningar snúast um viðhorf. Viðhorf stjórnmálamanna til almennings í landinu.

Síðustu vikur og mánuði hafa komið fram skelfilegar sögur úr bæði heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu. Á meðan heilbrigðiskerfið hefur fengið ágætis athygli stjórnmálamanna þá er enginn áhugi meðal manna að ræða menntakerfið. Hvers vegna? Er erfitt að horfast í augu við sannleikann? Ég skora hér með á þig að taka umræðuna. Sýndu að þú sért stjórnmálamaður sem hefur bein í nefinu til þess að ræða vanlíðan barna í skólakerfinu.

Það er stór hópur fólks sem stendur í strangri baráttu við menntakerfið alla daga. Það er skólaskylda og við sem eigum börn komumst ekki hjá því að eiga við þetta kerfi, ekki frekar en að sjúklingar komist hjá því að eiga við heilbrigðiskerfið.

Þegar þú þarft að berjast með kjafti og klóm fyrir grunnþörfum barnsins þíns þá get ég lofað þér því að hugurinn leitar síst í innlend orkumál. Á meðan þú þarft að hlusta á starfsfólk skóla segja að ekki sé til fjármagn til þess að mæta þörfum barnsins þíns, eða að þú þurfir að bíða í margar vikur og mánuði eftir lífsnauðsynlegri aðgerð og mikilvægum rannsóknarniðurstöðum, þá get ég lofað þér því að lægri skattar eru það síðasta sem þú hugsar um. Þá er þér nákvæmlega sama hvort þú greiðir 36, 40 eða 42 prósent í skatta. Bara að þú fáir nauðsynlega þjónustu. Þetta snýst allt um grunnþarfir, vellíðan, heilbrigði og almenna skynsemi. Það er í hnotskurn það sem þessar kosningar snúast um, við skulum hafa það á hreinu.

Það að stjórnmálamenn hunsi vandann getur ekki boðað gott. Þeir gætu allt eins gefið okkur puttann og það er ekki það viðhorf sem við þurfum á að halda í samfélaginu.

Höfundur er laganemi við Háskóla Íslands.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Núna er næst!

Bjarney Bjarnadóttir,Jóhanna M. Þorvaldsdóttir skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.