Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Tindastóll 86-81 | Stjarnan í úrslit eftir háspennuleik

Árni Jóhannsson skrifar
Vísir/Vilhelm

Það var viðbúið að leikur Stjörnunnar og Tindastóls, í undanúrslitum VÍS bikarsins, yrði hörkuleikur. Það varð raunin en á endanum vann Stjarnan fimm stiga sigur.86-81, í miklum spennuleik.

Stólarnir byrjuðu betur og virtust slá heimamenn út af laginu örlítið með ákafanum sem þeir sýndu í varnarleik sínum og baráttu. Það tók heimamenn nokkur andartök að ná áttum og vopnum sínum og úr varð að fyrsti leikhlutinn var í járnum þar sem bæði lið náðu ágætis sprettum og misst andstæðing sinn ekki of langt frá sér. Leikhlutinn endaði í stöðunni 24-20 fyrir heimamenn.

Annar leikhluti var þó önnur saga. Tindastóll tók öll völdin og náði að bæta í ákafann sinn í vörninni ef eitthvað er og Stjörnumenn voru aftur slegnir út af lagin. Tindastóll keyrði yfir heimamenn sem sáu ekki til sólar. Stólarnir skoruðu tíu stig í röð í einum sprettinum og komust mest 12 stigum yfir en þeir unnu annan leikhluta 28-15 og í raun og veru bjargaði flautukarfa frá Hilmari Henningss. andliti heimamanna og lagaði stöðuna örlítið þegar gengið var til búningsherbergja í stöðunni 39-48.

Blaðamaður ritaði í hálfleik að Stjörnumenn þyrftu að mæta trylltir út í seinni hálfleikinn til að ekki færi illa og það varð heldur betur raunin.

Taflið snerist nefnilega algjörlega við og heimamenn unnu þriðja leikhluta með sömu stöðu og Stólarnir unnu annan leikhluta eða 28-15. Það sem helst breyttist var að Stjörnumenn pössuðu boltann betur en í fyrri hálfleik töpuðu þeir 13 boltum í heildina sem er allt of mikið. Einnig þá datt ákafinn niður hjá Stólunum sem þurftu að sætta sig við að vera undir þegar þriðji leikhluti var úti. Staðan 67-63 fyrir heimamenn og spennan í algleymingi.

Fjórði leikhluti var eins og sá fyrsti, í miklu jafnvægi, liðin skiptust á körfum og því að stoppa andstæðinginn með góðri vörn og um leið var skipst á forskoti nokkrum sinnum. Um miðjan leikhlutann var staðan jöfn 73-73 en þa´náðu heimamenn fimm stiga forskoti sem þeir létu ekki af hendi. Stólarnir reyndu eins og þeir gátu en komust ekki nær en tveimur stigum og gerðu sig svo seka um að brjóta of snemma af sér á lokamínútunni sem gaf heimamönnum tækifæri á að klára leikinn af vítalínunni sem þeir og gerðu. Leikar enduðu 86-81 fyrir heimamenn og þeir munu leika við Njarðvíkinga um bikarmeistaratitilinn á laugardaginn næstkomandi.

Afhverju vann Stjarnan?

Þegar þeir náðu að jafna ákafa Stólanna og komust í takt í sóknarleiknum þá náðu þeir völdunum á leiknum. Gestirnir aftur á móti misstu dampinn og taktinn og náðu ekki að nýta sér þá yfirburði sem þeir höfðu í fyrri hálfleik. Stjarnan náði svo að sigla sigrinum heim og verðskulduðu sigurinn.

Bestir á vellinum?

Bæði lið fengu flott framlag frá mörgum leikmönnum og því til dæmis þá voru fimm leikmenn Stjörnunnar með yfir 10 stig og fjórir leikmenn gestanna. Stigahæstir voru þeir Shawn Dominique Hopkins fyrir Stjörnunar og Javon Anthony Bess fyrir Tindastól. Báðir með 20 stig en Shawn Dominique Hopkins var með 23 framlagspunkta.

Tölfræði sem vakti athygli?

Stjarnan tapaði 13 boltum í fyrri hálfleik en Stólarnir með færri en 10 slíka. Í seinni hálfleik tapaði Stjarnan fimm boltum og enduðu með 18 slíka og Stólarnir voru með 16 tapaða bolta í heildina. Það gerði gæfumuninn í dag að mínu mati.

Hvað næst?

Eins og hefur áður komið fram geta Stjörnumenn varið bikartitilinn sinn en það væri þá í þriðja sinn í röð sem þeir myndu vinna þann stóra. Njarðvíkingar eiga harma að hefna á móti þeim og gera það að verkum að þetta verður engin ganga í garðinum fyrir Stjörnumenn. Tindastóll þarf að mæta á æfingar og finna sér æfingaleiki fram að móti.

Baldur Þór: Bara alvöru leikur á erfiðum útivelli en það verður nóg af þeim

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls, segir að sínir menn hafi misst ákafann í seinni hálfleik.vísir/bára

Þjálfari Tindastóls, Baldur Þór Ragnarsson, var að vonum svekktur með úrslitin en sá þó ýmislegt jákvætt í leik sinna manna þó. Hann var spurður hvað hefði gerst í hálfleik því þeir höfðu góð tök á leiknum í fyrri hálfleik.

„Við bara misstum ákafann sem við vorum með í fyrri hálfleik niður og það eru ýmsar ástæður fyrir því. Thomas [Kalmeba-Massamba] tognar aftan í læri og Siggi Þorsteins. fær fimm villur og bara botninn datt úr þessu hjá okkur.“

Baldur var sammála blaðamanni að þetta hafi verið góður leikur, bæði hjá hans mönnum og í heild sinni.

„Já þetta eru hörkulið hjá Stjörnunni og hörkuleikur. Bæði lið á fullu að reyna að vinna og það var gaman að þessu.“

Baldur var spurður að því hvað hann og liðið hans hafi fengið út úr þessum leik og hverjar væntingarnar væru fyrir tímabilið.

„Bara alvöru leikur á erfiðum útivelli en það verður nóg af þeim. Við ætlum svo að reyna að vinna alla leiki í vetur.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.