Sport

Stuðningsmenn björguðu ketti eftir afar hátt fall

Sindri Sverrisson skrifar
Kötturinn missti að lokum takið og féll langt niður.
Kötturinn missti að lokum takið og féll langt niður.

Köttur nokkur á varla fleiri en átta líf eftir, ef svo má segja, eftir að hann féll fram af stúkubrún á leik í bandaríska háskólaruðningnum. Stuðningsmenn björguðu honum með því að láta hann falla á bandaríska fánann.

Atvikið átti sér stað á leik Miami háskólans við Appalachian State á laugardagskvöld. Á myndbandi má sjá hvernig kötturinn hékk á efstu svölum stúkunnar á vellinum og missti smám saman takið á þeim. Einn áhorfenda reyndi að teygja sig eftir honum en að lokum missti kötturinn takið og féll langt niður.

Sem betur fer voru nokkrir stuðningsmenn búnir að finna nokkurn veginn út hvert kötturinn myndi falla og héldu þar á bandaríska fánanum á milli sín svo þeir gætu gripið köttinn. Það tókst og kötturinn lifði fallið af, við mikinn fögnuð eins og sjá má á myndbandinu hér að neðan.

Hjónin Craig og Kimberly Cromer áttu samkvæmt frétt NBC stóran þátt í að bjarga kettinum en þau héldu á fánanum: „Það var verið að reyna að grípa köttinn að ofan en það tókst ekki og þau voru að hræða köttinn niður,“ sagði Craig. „Hann hékk þarna í smástund á tveimur loppum, svo annarri, og loks var ég bara: „Guð minn góður, hann er að koma.““

Cromer-hjónin fögnuðu því líkt og aðrir að ekki fór verr og gátu svo einnig fagnað sigri Miami skólans í leiknum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.