Innlent

Um 104 þúsund fjár slátrað hjá SS á Selfossi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Lömb á leið í sláturhúsið á Selfossi í morgun.
Lömb á leið í sláturhúsið á Selfossi í morgun. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Sauðfjárslátrun hófst hjá Sláturfélagi Suðurland á Selfossi í morgun en um 104 þúsund fjár verður slátrað þar næstu vikurnar. Illa hefur gengið að fá fólk til starfa í sláturtíðinni.

Sláturbílarnir koma nú hver af öðrum í sláturhúsið með lömb af bæjum á Suðurlandi, sem eru að fara í slátrun. Nokkur þúsund lömbum er slátrað á dag. Sláturtíðin leggst vel í starfsfólk SS.

„Ég hugsa að þetta verið alveg frábær sláturtíð eins og síðustu sláturtíðir hafa verið, við erum allavega mjög spennt og hlökkum bara til. Við munum slátra á milli 103 og 104 þúsund fjár,“ segir Benedikt Benediktsson framleiðslustjóri SS. Hann segir vænleika lambanna fínan þennan fyrsta sláturdag.

Sláturfélaginu hefur gengið illa að ráða fólk í sláturtíðina þar sem allir virðast hafa meira en nóg að gera í öðrum störfum.

„Já, það var svolítið ströggl og hefur gengið svona upp og ofan en já, þetta er nú að hafast. Það er bara erfitt að fá fólk á þessum tímum, það er mikið að gera í ferðaþjónustunni og erfitt að fá fólk hér innanlands, þannig að við þurfum bara að leita annað,“ segir Benedikt.

Benedikt Benediktsson framleiðslustjóri SS, sem segir sláturtíð alltaf mikið tilhlökkunarefni hjá starfsfólki fyrirtækisins.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Benedikt segir að sóttvarnir séu mjög strangar í sláturhúsinu.

„Já, já, það er bara það sama, húsið er lokað fyrir öllum utanaðkomandi og við verðum auðvitað að passa upp á allar sóttvarnir og vernda húsið.“

En hvað er skemmtilegast við sláturtíðina?

„Það er svo margt. Það er fullt af skemmtilegu fólki sem kemur til starfa hjá okkur og það er stemming í liðinu. Það er svo margt gaman, það færist mikið líf í húsið þessar vikur, sem sláturtíðin stendur yfir,“ segir Benedikt.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.