Innlent

Finnst koma til greina að ríkið dreifi sjálfs­prófum á heimili

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Sigurður Ingi fór í hraðpróf fyrir veislu í gær og ber því fyrirkomulagi vel söguna.
Sigurður Ingi fór í hraðpróf fyrir veislu í gær og ber því fyrirkomulagi vel söguna. facebook/sigurður ingi

Sigurður Ingi Jóhanns­son, sam­göngu- og sveita­stjórnar­ráð­herra, ber því hrað­prófa­fyrir­komu­lagi vel söguna sem ríkis­stjórnin skoðar hvort hægt sé að taka upp á Ís­landi til að leyfa stærri sam­komur. Hann mætti í veislu í gær þar sem allir veislu­gestir voru skimaðir fyrir Co­vid-19 með hrað­prófum áður en þeir fengu að fara inn í veislu­salinn.

„Það voru allir 50 til 60 gestir með nei­kvætt svar og voru mjög já­kvæðir með það,“ segir Sigurður Ingi í sam­tali við Vísi. Gest­gjafinn bókaði prófin frá einka­aðila sem býður upp á slíka þjónustu á Ís­landi.

„Þarna fer maður bara í test sem er öruggt og tekið af fag­manneskju. Svo fór maður bara niður og varð að bíða í eitt­hvað korter eftir niður­stöðunni og fékk svo að fara inn í salinn,“ segir Sigurður Ingi.

„Og fyrir vikið voru allir mun öruggari. Maður veit að maður er ekki að smita aðra og að þeir eru í sömu sporum. Það er á­kveðið öryggi sem felst í því.“

Hann segir að hrað­prófið hafi ekki farið alveg eins langt upp í nef og PCR-prófið og þá hafi ekki þurft að taka sýni úr kokinu heldur úr báðum nösum.

Bæði Sigurður Ingi og Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir dóms­mála­ráð­herra hafa greint frá því að ríkis­stjórnin sé að skoða leiðir til að létta á bæði sam­komu­tak­mörkunum og jafn­vel sótt­kvíarreglum og gætu hrað­prófin hjálpað í þeim efnum.

Sjálfspróf hentug fyrir viðkvæmar stofnanir

Sigurður Ingi nefnir einnig sjálfs­próf sem eru víða í notkun er­lendis. Hann sér jafn­vel fyrir sér að ríkið gæti dreift slíkum prófum á heimili landsins en slíkt tíðkast í ein­hverjum Evrópu­löndum, til dæmis í Austur­ríki.

Hann segir hrað­prófin eðli­lega dýrari en sjálfs­prófin enda haldi fag­aðilar utan um þau. „Í nokkrum löndum hefur ríkis­valdið dreift þessum sjálfs­prófum.“

Kemur til greina að gera slíkt hér á landi?

„Mér finnst allt koma til greina sem virkar til tempra smit­fjöldann og halda eðli­legu sam­fé­lagi gangandi. Því hitt er mjög dýrt, að vera með mjög í­þyngjandi tak­markanir á sam­fé­laginu og vera með svo mikið álag á spítalanum.“

Það er samt galli á sjálfs­prófunum:

„Vandinn við þau er að þau eru ekki með svona skráningu eins og til dæmis hrað­prófið sem ég var í í gær. Því ef ein­hver hefði greinst þar hefði það verið skráð og hann þurft að fara í PCR-próf. En í svona sjálfs­prófum er það auð­vitað undir þér komið að gera það. Hluti af því er að við þurfum að bera meiri á­byrgð á þessu sjálf.“

Hann sér þó fyrir sér hvar sjálfs­prófin geta verið gagn­leg: „Við getum klár­lega verið að beita þessum prófum á við­kvæmum stofnunum; þegar fólk væri að koma inn á spítala, í heim­sókn á hjúkrunar­heimili eða jafn­vel í skólum í byrjun vikunnar. Og svo er klár­lega hægt að nota þetta á stærri sam­komum ef við verðum með fjölda­tak­markanir til lengri tíma.“


Tengdar fréttir

Vill að al­manna­varnir biðji for­eldra af­sökunar

Faðir stúlku á leikskóla, sem lenti í sóttkví eftir að smit kom upp hjá starfsmanni skólans, segir að almannavarnir hafi ranglega sent fullbólusetta foreldra barna skólans í sóttkví. Hann áttaði sig á því í gær að það stangaðist á við leiðbeiningar sóttvarnalæknis og þegar hann benti almannavörnum á það var honum sagt að hann þyrfti aðeins að vera í svokallaðri smitgát.

Hraðprófin komi ekki í veg fyrir sóttkví

Sóttvarnalæknir segir ekki hafa verið tilefni til að létta á sóttvarnaaðgerðum miðað við fjölda smitaðra og með Landspítalinn á neyðarstigi. Stjórnvöld hafi því ekki haft annað val en að framlengja gildandi ráðstafanir um tvær vikur.

Hrað­próf tekin í notkun hér á landi

Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið í notkun hraðpróf til greiningar á kórónuveirunni. Prófin eru ekki notuð við einkennasýnatöku heldur eru þau einungis ætluð þeim sem þurfa að sýna fram á neikvæða niðurstöðu úr sýnatöku á landamærum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×