„Það voru allir 50 til 60 gestir með neikvætt svar og voru mjög jákvæðir með það,“ segir Sigurður Ingi í samtali við Vísi. Gestgjafinn bókaði prófin frá einkaaðila sem býður upp á slíka þjónustu á Íslandi.
„Þarna fer maður bara í test sem er öruggt og tekið af fagmanneskju. Svo fór maður bara niður og varð að bíða í eitthvað korter eftir niðurstöðunni og fékk svo að fara inn í salinn,“ segir Sigurður Ingi.
„Og fyrir vikið voru allir mun öruggari. Maður veit að maður er ekki að smita aðra og að þeir eru í sömu sporum. Það er ákveðið öryggi sem felst í því.“
Hann segir að hraðprófið hafi ekki farið alveg eins langt upp í nef og PCR-prófið og þá hafi ekki þurft að taka sýni úr kokinu heldur úr báðum nösum.
Bæði Sigurður Ingi og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hafa greint frá því að ríkisstjórnin sé að skoða leiðir til að létta á bæði samkomutakmörkunum og jafnvel sóttkvíarreglum og gætu hraðprófin hjálpað í þeim efnum.
Sjálfspróf hentug fyrir viðkvæmar stofnanir
Sigurður Ingi nefnir einnig sjálfspróf sem eru víða í notkun erlendis. Hann sér jafnvel fyrir sér að ríkið gæti dreift slíkum prófum á heimili landsins en slíkt tíðkast í einhverjum Evrópulöndum, til dæmis í Austurríki.
Hann segir hraðprófin eðlilega dýrari en sjálfsprófin enda haldi fagaðilar utan um þau. „Í nokkrum löndum hefur ríkisvaldið dreift þessum sjálfsprófum.“
Kemur til greina að gera slíkt hér á landi?
„Mér finnst allt koma til greina sem virkar til tempra smitfjöldann og halda eðlilegu samfélagi gangandi. Því hitt er mjög dýrt, að vera með mjög íþyngjandi takmarkanir á samfélaginu og vera með svo mikið álag á spítalanum.“
Það er samt galli á sjálfsprófunum:
„Vandinn við þau er að þau eru ekki með svona skráningu eins og til dæmis hraðprófið sem ég var í í gær. Því ef einhver hefði greinst þar hefði það verið skráð og hann þurft að fara í PCR-próf. En í svona sjálfsprófum er það auðvitað undir þér komið að gera það. Hluti af því er að við þurfum að bera meiri ábyrgð á þessu sjálf.“
Hann sér þó fyrir sér hvar sjálfsprófin geta verið gagnleg: „Við getum klárlega verið að beita þessum prófum á viðkvæmum stofnunum; þegar fólk væri að koma inn á spítala, í heimsókn á hjúkrunarheimili eða jafnvel í skólum í byrjun vikunnar. Og svo er klárlega hægt að nota þetta á stærri samkomum ef við verðum með fjöldatakmarkanir til lengri tíma.“