Sport

Komst ekki í úrslitahlaupið í Ríó en varð Ólympíumeistari í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Peruth Chemutai fagnar sigri sínum í úrslitahlaupinu.
Peruth Chemutai fagnar sigri sínum í úrslitahlaupinu. AP/Charlie Riedel

Peruth Chemutai frá Úganda varð í dag Ólympíumeistari í 3000 metra hindrunarhlaupi kvenna á Ólympíuleikunum í Tókýó.

Chemutai kom í mark á 9:01.45 mín. sem er nýtt persónulegt met. Chemutai virtist ekki hafa mikið fyrir því þegar hún fór fram úr hinni bandarísku Courtney Frerichs á lokasprettinum.

Frerichs náði að hanga á silfurverðlaununum en Hyvin Kiyeng frá Kenýa fékk síðan bronsverðlaunin. Stelpurnar frá Kenýa, Kiyeng og Chepkoech, voru sigurstranglegastar fyrir úrslitahlaupið en uppskera þeirra var aðeins brons og sjöunda sæti.

Chemutai er 22 ára gömul en var einnig með í þessari grein á leikunum í Ríó sumarið 2016. Þá hljóp hún á 9:31.03 mín. en komst ekki áfram í úrslitahlaupið þrátt fyrir að setja þá nýtt persónulegt met.

Nú fimm árum seinna átti enginn möguleika í hana og hún búin að bæta sitt persónulega met um næstum því hálfa mínútu.

Þetta er aðeins þriðja Ólympíugull í sögu Úganda og það fyrsta sem kona vinnur. John Akii-Bua vann 400 metra grindarhlaup á Ólympíuleikunum í München 1972 og Stephen Kiprotich vann maraþon á leikunum í Barcelona 1992.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×