Innlent

Sögunni endalausu um Teigsskóg virðist lokið með sögulegum samningi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
260 metra löng brú sem þvera á Þorskafjörð. Svo mun vegurinn halda áfram í vesturátt, meðal annars í gegnum Teigsskóg þar sem jörðina Gröf er að finna.
260 metra löng brú sem þvera á Þorskafjörð. Svo mun vegurinn halda áfram í vesturátt, meðal annars í gegnum Teigsskóg þar sem jörðina Gröf er að finna. Vegagerðin

Það vakti athygli margra síðdegis í gær að á meðan löngum ríkisstjórnarfundi um minnisblað sóttvarnalæknis stóð greindi samgönguráðherra frá langþráðum áfanga í vegagerð hér á landi. Vegalagning um Gufudalssveit væri fram undan en deilur um svæðið og nýjan veg þar um hafa staðið í tvo áratugi. Sagan endalausa virðist ætla að enda eftir allt saman.

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að Vegagerðin og landeigendur Grafar í Þorskafirði hafi náð samkomulagi um vegalagningu í Gufudalssveit. Eigendur Grafar voru þeir einu sem ósamið var við.

„Það er fagnaðarefni að ná þessum áfanga sem tryggir framgang þessarar nauðsynlegu samgöngubótar á Vestfjörðum,“ segir á vef Vegagerðarinnar en deilur hafa staðið um framkvæmdina vegna áhrifa á umhverfið. Þá sérstaklega Teigsskóg sem er stærsti samfelldi birkiskógur á Vestfjörðum.

Teigsskógur í Þorskafirði.Vegagerðin

„Við endurupptöku málsins nú síðustu ár hefur í allri hönnun verið lögð höfuðáhersla á að leita leiða til þess að lágmarka þau áhrif eins og nokkur kostur er. Vegagerðin og landeigendur Grafar hafa átt í viðræðum á árinu með það meðal annars að markmiði að draga úr umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar en þessum viðræðum lauk með undirskrift samnings í dag, þann 23. júlí,“ segir á vef Vegagerðarinnar.

Vegagerðin og eigendur Grafar séu á einu máli að standa vel að verki og vanda frágang eins og kostur er.

„Landeigendur Grafar hafa staðið gegn framkvæmdinni með hagsmuni náttúrunnar að leiðarljósi og verið í forgrunni í þeirri baráttu. Í kjölfar niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála varðandi framkvæmdaleyfi hafa þeir hins vegar unnið að því með Vegagerðinni að laga framkvæmdina sem best að landi innan landamerkja Grafar þannig að hún hafi sem minnst inngrip í náttúruna.“

Framkvæmdir við vegalagningu hófust sumarið 2020 með endurbyggingu Vestfjarðavegar frá Skálanesi í Gufudal sem gert er ráð fyrir að ljúki nú á næstu vikum. Verður þá rúmlega 5 kílómetra kafli Vestfjarðavegar lagður bundnu slitlagi.

Vorið 2021 hófust svo framkvæmdir við þverun Þorskafjarðar frá Kinnarstöðum að Þórisstöðum og er bygging 260 metra langrar brúar að hefjast. Gert er ráð fyrir verklokum árið 2024.

Eins og sjá má eru framkvæmdir við þverun Þorskafjarðar hafnar.Vegagerðin

Næsti áfangi verksins er bygging Djúpadalsvegar, rúmlega 5 kílómetra langs vegar sem mun tengja Djúpadal við nýjan Vestfjarðaveg. Útboð var auglýst þann 21. júlí síðastliðinn og gert er ráð fyrir að þeim framkvæmdum verði lokið sumarið 2022.

Frekari útboð verði svo auglýst í haust.

„Langþráður áfangi er í höfn,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra. 

„Eins og í öðrum framkvæmdum þá þarf að standa vel að verki og vanda frágang eins og kostur er. Áfram veginn,“ segir Sigurður Ingi.

Fjallað var um þau tíðindi þegar framkvæmdaleyfi fékkst á vegalagninguna sumarið 2020 í fréttum Stöðvar 2. 


Tengdar fréttir

Dynjandisheiði ekki í útboð á þessu ári vegna fjárskorts

Vegagerðin hefur fallið frá því að bjóða út stærsta áfanga nýs vegar yfir Dynjandisheiði í sumar þar sem ekki eru til peningar í verkið. Áformað er þó að bjóða út næsta áfanga vegagerðar um Gufudalssveit í haust.

Verktakinn byrjar þverun Þorskafjarðar í næstu viku

Verksamningur milli Vegagerðarinnar og Suðurverks um þverun Þorskafjarðar var undirritaður í dag. Vegamálastjóri segir þetta lið í gríðarlegum samgöngubótum á Vestfjörðum sem stytti leiðina milli Reykjavíkur og Ísafjarðar um fimmtíu kílómetra.

Vestfirðingar vonast til að hylli undir lok sögunnar endalausu

„Við höfum náttúrlega reynslu af því að þurfa að bíða mjög lengi eftir því að fá samgöngubætur, eins og Teigsskógarruglið hefur verið. Við bara þekkjum það vel. Og það er ekkert í höfn fyrr en við bara sitjum í bílunum okkar og það er verið að opna vegina okkar,“ segir Hafdís Gunnarsdóttir, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.