Bíó og sjónvarp

Heimilda­mynd um Ant­hony Bour­dain gagn­rýnd fyrir gervi­rödd

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Myndin Roadrunner: A Film About Anthony Bourdain hefur verið gagnrýnd fyrir að nota gervigreind til að endurgera rödd kokksins Anthony Bourdains heitins.
Myndin Roadrunner: A Film About Anthony Bourdain hefur verið gagnrýnd fyrir að nota gervigreind til að endurgera rödd kokksins Anthony Bourdains heitins. Getty/Slaven Vlasic

Heimildamynd um stjörnukokkinn Anthony Bourdain heitinn hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að hafa beitt gervigreind til að endurgera rödd kokksins. Leikstjóri myndarinnar staðfesti að rödd kokksins hafi verið endurgerð með hjálp gervigreindar og notuð í myndinni.

„Ef þú horfir á myndina muntu líklega ekki fatta hvaða setningar gervigreindin sagði, og þú munt ekki vita það,“ sagði Morgan Neville, leikstjóri myndarinnar Roadrunner: A Film About Anthony Bourdain, í samtali við New Yorker. Hann segir að tækninni hafi verið beitt til að hægt væri að heyra „kokkinn segja“ setningar, sem hann hafði skrifað, upphátt.

Hann segir að hann hafi fengið leyfi hjá aðstandendum Bourdains til að beita tækninni í þessu skini.

„Ég spurði ekkju hans og útgefandans hans til að vera viss um að þeim þætti þetta í lagi. Og þau sögðu að honum hefði þótt þetta flott,“ sagði Neville.

Fólk hefur hins vegar velt upp spurningum um siðferði í sambandi við þetta.

„Við verðum í sameiningu að endurmeta samband okkar við fræga listamenn og spyrja okkur að því hvers vegna okkur þykir við eiga rétt til þeirra jafnvel eftir dauða,“ tísti einn blaðamaður.

„Þetta er siðferðislega rangt á svo mörgum sviðum og er virkilega ógeðslegt,“ skrifaði Ashley Lynch, handritahöfundur, á Twitter.

Neville brást við þessu og sagði að hann hafi fengið leyfi frá aðstandendum hans til að færa líf í orð sem Bourdain hafði skrifað með hjálp gervigreindar.

„Þetta var nútímaleg leið til að segja sögu sem ég notaði á nokkrum stöðum þar sem mér fannst mikilvægt að heyra orð Tony,“ sagði hann í samtali við Variety.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×