Innlent

Fimm með réttarstöðu sakbornings: Tóku efni að virði níutíu milljóna króna

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Frá aðgerðum lögreglu þegar kannabisverksmiðjan var stöðvuð fyrr á árinu. 
Frá aðgerðum lögreglu þegar kannabisverksmiðjan var stöðvuð fyrr á árinu. 

Fimm eru með réttarstöðu sakbornings í máli sem talið er tengjast skiplagðri kannabisframleiðslu. Lögregla hefur lagt hald á kannabisefni að virði rúmlega níutíu milljóna króna og upprætt fimm stórar kannabisframleiðslur í íbúðar- og iðnaðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu.

„Síðastliðnar  tvær vikur höfum við verið með nokkurn hóp manna til rannsóknar sem hefur leitt til þess að við höfum tekið talsvert magn af kannabisplöntum og af tilbúnu efni til sölu,“ segir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.  

Málin teygja anga sína í aðrar rannsóknir sem lögregla hefur rannsakað undanfarna mánuði og eru rannsökuð sem skipulögð glæpastarfsemi. Fjallað var um málin í Kompás fyrr á árinu. 

Um er að ræða tæplega átta hundruð kannabisplöntur sem voru í fimm ræktunum sem upprættar voru á höfuðborgarsvæðinu. Ræktanirnar voru í íbúðar- og iðnaðarhúsnæði. 

Götuvirðið tæpar hundrað milljónir

„Einnig var lagt hald á um tuttugu og sex kíló af tilbúnu kannabisefni,“ segir Margeir og bætir við að götuvirðið hlaupi á tugum milljóna. Grammið af kannabis kostar 3.500 krónur á götunni og því er götuvirði tilbúna efnisins um níutíu og ein milljón króna. 

Þá lagði lögregla hald á ýmsan búnað. „Búnaðurinn er mjög tæknilegur og flottur og dýr og við metum þennan búnað sem við höfum verið að leggja hald á á um þrjátíu milljónir,“ segir Margeir. Einnig var hald lagt á eignir fyrir um fimm milljónir króna og um tvær milljónir í reiðufé. 

Íslendingar og útlendingar með stöðu sakbornings

Fimm voru handteknir í tengslum við ræktanirnar, bæði Íslendingar og útlendingar. Öll á fertugsaldri. Þau eru talin tengjast skipulögðum glæpahópum. „Einn hefur verið í gæsluvarðhaldi,“ segir Margeir. 

Margeir Sveinsson segir mikið um kannabisræktanir á Íslandi um þessar mundir. Vísir/ArnarHalldórs

Hann segir mikið um kannabisræktanir á Íslandi. Lítið sem ekkert sé flutt inn af kannabis. „Við höfum áhyggjur af þessari þróun og sérstaklega þessum hópum sem hafa verið að gera þetta með skipulögðum hætti. Þetta mál tengist öðrum málum sem varða skipulagða glæpastarfsemi sem við höfum verið með til rannsóknar,“ segir Margeir og bætir við að málin séu enn í rannsókn. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×