Sport

Róbert fer fyrir Íslands hönd til Tókýó

Sindri Sverrisson skrifar
Sundmennirnir Már Gunnarsson og Róbert Ísak Jónsson verða báðir á ferðinni í Tókýó eftir tvo mánuði.
Sundmennirnir Már Gunnarsson og Róbert Ísak Jónsson verða báðir á ferðinni í Tókýó eftir tvo mánuði. ÍFsport.is

Sundmaðurinn Róbert Ísak Jónsson verður meðal keppenda á Paralympics, ólympíumóti fatlaðra, í Tókýó í sumar. Hann er fimmti Íslendingurinn sem tryggir sér sæti á leikunum.

Róbert Ísak sem æfir með SH/Firði, getur þakkað það góðum árangri á Evrópumeistaramóti IPC í Portúgal í síðasta mánuði að hann skuli hafa fengið farseðilinn til Tókýó. 

Leikarnir hefjast 24. ágúst og standa yfir til 5. september, og mun Róbert keppa í 100 metra flugsundi, 200 metra fjórsundi og 100 metra bringusundi. Hann verður fyrstur Íslendinga til að keppa á mótinu, strax daginn eftir setningarhátíðina.

Íslensku keppendurnir eru þar með orðnir jafnmargir og á Paralympics í Ríó árið 2016. Auk Róberts mun sundfólkið Már Gunnarsson og Thelma Björg Björnsdóttir, og frjálsíþróttafólkið Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir og Patrekur Andrés Axelsson, keppa á leikunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×