Menning

Enginn klappaði þegar sýningunni lauk

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Kjartan Darri Kristjánsson útskrifaðist með BA frá leiklistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2015
Kjartan Darri Kristjánsson útskrifaðist með BA frá leiklistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2015 Þjóðleikhúsið

Á Grímunni í ár var barnasýninginn Kafbátur í leikstjórn Hörpu Arnardóttur verðlaunuð barnasýning ársins.  Kjartan Darri Kristjánsson, ungur leikari sem kom til starfa í Þjóðleikhúsinu síðasta vetur, var þar valinn leikari ársins í aukahlutverki fyrir frammistöðu sína sem vélmennið Anon í Kafbáti.

„Það var æðislegt. Óvænt, en æðislegt,“ segir Kjartan Darri, sem oftast er kallaður er Darri. 

„Það er alltaf gaman að fá viðurkenningu fyrir það sem maður gerir. Í fyrsta skipti sem ég fékk tilnefningu til Grímunnar var árið 2017 fyrir lýsingu ársins, það var líka óvænt og æðislegt en tilfinningin var öðruvísi í þetta sinn enda lít ég á mig fyrst og fremst sem leikara, og að fá svona viðurkenningu er svo auðmýkjandi og minnir mann á hvað það eru mikil forréttindi að fá að vinna við það sem maður brennur fyrir.“

Fór alla leið í að rækta

Vélmennið Anon hentaði Darra alveg einstaklega vel.  „Ég er algjör Sci-fi aðdáandi og sýningin Kafbáturinn er príma barna Sci-fi. Ég leik Anon sem er vélmenni eða einhverskonar gervigreind. Hann var skapaður fyrir vináttu, þannig það var ekkert annað en stórkostlegt að rannsaka þetta hlutverk. Anon getur flett upp allskonar upplýsingum og staðreyndum en er svo að reyna sinna sínu helsta hlutverki, því sem hann var skapaður fyrir; að vera heimsins besti vinur.“

Darri á ýmislegt sameiginlegt með vélmenninu Anon. 

„Er maður ekki alltaf að reyna að vera heimsins besti vinur? Reyna að vera með fullt af upplýsingum og staðreyndum á reiðum höndum og vera til staðar fyrir vini sína? Annars talar Anon mikið um fræ, tré og plöntur í sýningunni, það er eitt sem við áttum sameiginlegt í vor, og byrjun sumars. Ég fór alveg alla leið í að rækta allskonar heima hjá mér. Algjör sælutilfinning að fylgjast með plöntum vaxa og finna út hvað hver planta þarf til að þrífast, fullt af upplýsingasöfnun sem fer fram þar, Anon væri ánægður með það.“

Kjartan Darri slær í gegn í barnasýningunni Kafbátur.Þjóðleikhúsið

Galdraðist inn í þessa veröld

Darri útskrifaðist 2015 og á því ekki mjög langa feril að baki. Hann er þó kominn á fullt í vinnu í Þjóðleikhúsinu og hans bíða fleiri spennandi verkefni á næsta leikári, meðal annars verður hann í stórsöngleiknum Sem á himni sem Unnur Ösp mun leikstýra. Það er ekki algengt að leikarar séu verðlaunaðir með Grímu svo snemma á ferlinum. Skemmst er þó að minnast annars leikara sem fékk grímuverðlaun fljótlega eftir útskrift, en það var Björn Thors sem var valinn leikari ársins í aukahlutverki árið 2005 fyrir leik sinn í Græna landinu. Björn fékk einmitt sín fjórðu Grímuverðlaun í ár fyrir magnaða frammistöðu sína í Vertu úlfur.

Darri syngur í barnaleikritinu en er þó ekki lærður söngvari. 

„Ég hef ekki lært söng, fyrir utan þá söngtíma sem við fengum í leiklistarskólanum en mér finnst alveg sérstaklega gaman að syngja. Fyrsta leikhúsvinnan mín var í Íslensku Óperunni, ég var þrettán eða fjórtán ára og ég galdraðist inn í þessa veröld. Syngjandi leiklistarfrásögn, óperur og þá aðallega söngleikir heilluðu mig upp úr skónum þegar ég var í grunnskóla, þá lék ég til dæmis í minni fyrstu sýningu West Side Story. En svona utan leikhússins þá gríp ég stundum í gítarinn og syng mér til dægrastyttingar. Það hefur einhvern heilunarmátt að syngja og spila.“

Segja má að Kjartani sé ekkert óviðkomandi í leikhúsi og hann er ekki einhamur. Hann hefur tekið að sér ýmis störf á sviði og utan og var til að mynda tilnefndur fyrir lýsingu í verkinu Þórbergur árið 2017. Darri hefur náð þeirri jafnvægislist sem til þarf til að ná árangri í starfi og að reka heimili en hann er tveggja barna faðir og í sambúð með Ernu Guðrúnu Sigurðardóttur. Hann hefur verið iðinn við kolann með sjálfstæðu leikhópunum í fjölda ára en er nú orðinn fastráðinn við Þjóðleikhúsið. Í verkinu Kafbátur leikur Kjartan Darri vélmennið Anon. Frammistaða hans heillaði grímunefndina upp úr skónum og í verkinu syngur Darri einnig lagið Sjór og tár, sem meðlimir Móses Hightower, Steingrímur Teauge og Magnús Trygvason Eliasen semja.

Kjartan Darri hefur áður unnið Grímuverðlaun, þá fyrir lýsingu.Þjóðleikhúsið

Orðinn ruglaður á tímabili

Darri útskrifaðist með BA frá leiklistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2015 en segist ekki muna það hvenær hann ákvað að verða leikari. 

„Ætli það hafi ekki runnið upp fyrir mér þegar ég sótti um í LHÍ að ég ætlaði mér að verða leikari. Mér líður stundum eins og ég hafi ekki valið leiklistina heldur hafi leiklistin valið mig, hún var alltaf skammt undan og hafði svo mikið aðdráttarafl. Mér þótti voða gaman að setja upp skemmtiatriði þegar ég var lítill, fá smá athygli og fá fólk til að hlæja, svo tók ég þátt í leiklistarlífinu í Hagaskóla, fór í Menntaskólann í Reykjavík því ég var alveg hugfanginn af Herranótt og var svo í Stúdentaleikhúsinu þangað til í komst í leiklistarnám,“ útskýrir Darri. 

„Skólinn skerpti á faglegri og gagnrýnni hugsun, bæði á mig sem leikara og á annað sem maður sér. Maður fór alveg á bólakaf í að rýna í sjálfan sig og aðra í kringum mann, velta fyrir sér af hverju fólk gerir þetta og hitt og á tímabili var ég orðinn alveg ruglaður. Það var ekkert nógu gott, ekkert nógu rétt eða nógu „alvöru“ sem ég gerði. Svo man ég eftir því að við bekkurinn horfðum á Ian Mckellen leika Shakespeare einleik, þarna var ég í algjörum lágpunkti í náminu, hafði enga trú á mér, leið eins og ég væri einhvern veginn ekki að meðtaka það sem skólinn var að reyna kenna mér. En þarna erum við að horfa á þetta og þvílík unun sem það var að sjá Ian Mckellen leika uppi á sviði, þvílík reynsla og innlifun, af hverju er hann svona góður? Kannski lenti hann í svona tilvistarkreppu þegar hann var í leiklistarskóla hugsaði ég, svo fór ég eftir tímann upp í búningsklefa og Googlaði smá, ég varð að komast að því í hvaða leiklistarskóla Mckellen var að upplifa sína krísu. Komst að því að Sir Ian Mckellen lærði aldrei leiklist, hann er lærður bókmenntafræðingur. Ætli það sé ekki eitt það mikilvægasta sem ég lærði í skólanum,“ segir Darri og hlær. 

„Ian Mckellen hefur unun af því að leika, að þykjast, segja sögur og á þessum tímapunkti í skólagöngunni þurfti ég að minna mig á að halda í leikgleðina. Maður getur alveg gleymt sér í alvarleika listarinnar og það er líka mikilvægt, að sökkva sér í hlutina, en leikgleðin verður að vera til staðar.“

Forréttindastaða

Eftir útskrift tók Darri til starfa hjá Leikfélagi Akureyrar og lék meðal annars í verkunum Pílu Pínu og Helga magra. Hann hefur tekið þátt í fjölda sýninga í sjálfstæðu senunni sem leikari, vídeó, hljóð og ljósahönnuður. En þar ber helst að nefna sýningarnar Tréð í uppsetningu LalaLab, Karíus og Baktus í uppserningu Daldrandi, Endastöð-Upphaf í uppsetningu Lab-Loka, Fyrirlestur um eitthvað fallegt í uppsetningu SmartíLab, Hún Pabbi í Borgarleikhúsinu, Hans Blær í uppsetningu Óskabarna Ógæfunnar, Svartlyng í uppsetningu GRAL og sýninguna How to Become Icelandic in 60 Minutes sem sýnd hefur verið í Hörpu yfir 800 sinnum.

Að hans mati er fólkið helsti kosturinn við starf leikara. 

„Bæði manneskjurnar og hlutverkin sem maður leikur og kynnist, en aðallega að fá að kynnast fólkinu sem maður vinnur með. Maður er svo heppinn að fá að kynnast allskonar fólki á sinni vegferð í leiklistinni. Svo er maður oft að vinna náið með fólki í stuttan tíma og kannski mun maður aldrei vinna með því aftur. Sumum fyndist örugglega erfitt að vinna í svona aðstæðum en mér líður eins og ég sé í forréttindastöðu, að fá að kynnast fullt af fólki sem er iðulega sérlega skemmtilegt og fallega furðulegt svo eitthvað sé nefnt.“

Darri segir að helsta áskorunin sé líklega að þurfa alltaf að halda sér á tánum, bæði andlega og líkamlega. Líka það að vera opinn og tilbúinn til þess að kafa í hlutina. 

„Æfingaferli sýninga er það dýrmætasta í vinnunni. Það er auðvitað æðislegt að leika fyrir áhorfendur, en galdurinn gerist oft fyrst á æfingum þar sem maður uppgötvar, lærir og upplifir eitthvað í gegnum karakterinn. Svo er það helsta verkefnið þegar sýningar hefjast að koma þessari upplifun til skila til áhorfanda og komast að einhverju glænýju í því ferli.“

Frá sýningunni Kafbátur.Þjóðleikhúsið

Darri er hjá Þjóðleikhúsinu í dag og segir að það sé mjög ólík upplifun. 

„Ég er tiltölulega nýbyrjaður í Þjóðleikhúsinu, en það fyrsta sem maður tekur eftir er kannski stærðarmunurinn, og yfirburðir hvað varðar aðbúnað, enda er Þjóðleikhúsið okkar heimsklassa leikhús. Þjóðleikhúsið er stofnun, sjálfstæða senan er kannski meiri vettvangur, þar sem Tjarnabíó er vissulega ákveðið heimili. Svo gefur það kannski augaleið að það er meira hark í sjálfstæðu senunni. Það hefur samt verið algjör gæfa að hafa haft mikið að gera í sjálfstæðu senunni, þar er mikill eldmóður og fólk gefur allt í sölurnar. Svo fær maður eins og ég að skipta sér að öllu mögulegu. Hef til dæmis oft verið að leika og ljósahanna sýningar í sjálfstæðu senunni, það er ótrúlega gaman, en ákveðinn léttir að fá að einbeita mér alfarið að leiknum í Þjóðleikhúsinu.“

Hann er þó ekki hættur allri ljósahönnun þó að einbeitingin sé annars staðar núna. 

„Ljós og lýsing eiga einhvern sérstakan stað í hjartanu á mér, það virðist vera erfitt að gefa ljósavinnu upp á bátinn. Ég fæ mína útrás á heimilinu mínu, búinn að lýsa hvern krók og kima þar, svo fá vinir og vandamenn mann í heimsókn, og ég fæ að hafa skoðun á lýsingunni á heimilinu, stundum alveg óumbeðið. En að vinna með ljós í leikhúsi er allt annað, algjör galdur. Maður hefur svo mikið vald sem ljósastjórnandi því maður er meðal annars að stjórna fókus áhorfenda, fyrir utan þá fegurð og dýpt sem hægt er að skapa með ljósi. Eins og er ætla ég að einbeita mér á næsta ári að leiklistinni og fá að njóta þess að fylgjast með ljósameisturum Þjóðleikhússins með öðru auga. Svo verður fjölskyldan mín að halda áfram að umbera þessa ljósþráhyggju mína á heimilinu.“

Furðuleg upplifun

Vloggið eftir Matthías Tryggva heldur áfram æfingum í haust og verður frumsýnt síðar í þessum mánuði. Það verður svo nóg að gera hjá Darra í haust í Þjóðleikhúsinu.

„Kafbáturinn heldur áfram að sigla djúpmyrkurdjúpt í haust, svo stendur til að fara í leikferð um landið með sýninguna Vloggið eftir Matthías Tryggva Haraldsson. Svo leik ég í söngleiknum Sem á Himni sem er ótrúlega spennandi verkefni, söngleikur sem verður frumsýndur eftir áramót. Lára og Ljónsi er sýning upp úr bókum Birgittu Haukdal sem ég mun taka þátt í. Svo mun leikhópur sem skipar bæði heyrandi og döff leikara halda áfram að vinna að sýningunni Eyja sem stendur til að sýna í Þjóðleikhúsinu.“

Starf leikara hefur verið óvenjulegt í heimsfaraldrinum, bæði hafa margar sýningar verið felldar niður og svo hafa fjöldatakmarkanir líka áhrif á upplifun áhorfenda og aðstandenda sýninga. 

„Ég er svo spenntur að hefja nýtt leikár og taka á móti áhorfendum án takmarkana. Það er búið að vera svo skrýtið að leika í þessu ástandi. Hólfaskiptir salir og fólk með grímur á sýningum hefur verið svaka furðuleg upplifun. Ég man sérstaklega eftir einni sýningu á Karíus & Baktus, þá klappaði enginn þegar sýningu lauk. Það hafði aldrei gerst áður og svona hélt þetta áfram, fólk var tregara til að hlægja, klappa og bregðast við í sínum hólfaskiptu sótthólfum og það vantaði þessa samupplifun áhorfenda sem er annars svo sterk í leikhúsi. Það verður æðislegt að taka á móti leikhúsgestum í haust, án takmarkana. Allir í leikhús,“ segir Darri að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.