Körfubolti

Raf­magnið fór í úr­slita­leik en stelpurnar buðu upp á „dansein­vígi“ í staðinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er alltaf gaman í liði Haley Jones, innan sem utan vallar. Hún varð háskólameistari í vor og Ameríkumeistari um helgina.
Það er alltaf gaman í liði Haley Jones, innan sem utan vallar. Hún varð háskólameistari í vor og Ameríkumeistari um helgina. Getty/C. Morgan Engel

Bandaríska kvennalandsliðið í körfubolta tryggði sér sigur í Ameríkukeppni um helgina með sigri á Púertó Ríkó í úrslitaleik en úrslitaleiksins verður kannski minnst fyrir annað en körfubolta.

Bandarikin vann fimmtán stiga sigur á Púertó Ríkó í úrslitaleiknum, 74-59, en Ameríkukeppnin fór fram á Púertó Ríkó.

Sigur bandarísku stelpnanna var nokkuð öruggur í seinni hálfleik en liðið var þó ekki skipað atvinnumönnunum úr WNBA-deildinni heldur bestu stelpunum úr háskólaboltanum.

Bandarísku stelpurnar unnu alla leiki sína á mótinu og þennan titil í fjórða sinn en Bandaríkin unnu hann líka 1993, 2007 og 2019.

Skotbakvörðurinn Rhyne Howard hjá Kentucky háskólanum, skoraði 22 stig í úrslitaleiknum og var kosin mikilvægasti leikmaður keppninnar. Hún hefur verið kosin leikmaður ársins í SEC deildinni undanfarin tvö tímabil.

Púertó Ríkó byrjaði úrslitaleikinn þó vel og var yfir eftir bæði fyrsta og annan leikhluta. Frábær þriðji leikhluti færði þeim bandarísku frumkvæðið og þær voru búnar að bæta við forskotið þegar rafmagnið á húsinu fór í fjórða leikhluta.

Það varð 25 mínútna töf á leiknum á meðan var reynt að koma rafmagninu aftur á. Rafmagnið fór þó ekki að öllu húsinu heldur var hægt að spila tónlist í hléinu.

Það nýttu liðin sér því stelpurnar buðu áhorfendum upp á „danseinvígi“ í staðinn fyrir körfubolta.

Liðin stilltu sér upp á miðju vallarins og skiptust á að sýna hvoru öðru dansa af öllum gerðum.

Dawn Staley, þjálfari bandaríska liðsins, hafði mjög gaman af þessu og tók upp myndband á símann sinn sem má sjá hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×