Erlent

Lögregluyfirvöld léku á glæpahópa með njósnaforriti

Hólmfríður Gísladóttir og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Ríkislögreglustjórinn Reece Kershaw og forsætisráðherrann Scott Morrison greina frá aðgerðinni á blaðamannafundi.
Ríkislögreglustjórinn Reece Kershaw og forsætisráðherrann Scott Morrison greina frá aðgerðinni á blaðamannafundi. epa/Dean Lewins

Lögregluyfirvöld víða um heim hafa handtekið hundruð glæpamanna þökk sé smáforriti sem starfrækt var af bandarísku alríkislögreglunni. Um var að ræða spjallforrit sem komið var í dreifingu meðal glæpahópa og gat lögregla þannig njósnað um öll samtöl sem fóru fram í forritinu.

Notkun löggæsluyfirvalda á appinu hefur leitt til handtaka í átján ríkjum. Í Ástralíu hafa 224 verið handteknir og þá hefur lögregla þar í landi gripið til aðgerða í tuttugu tilvikum þar sem rætt var um morð.

Forsætisráðherra landsins, Scott Morrisson, segir um að ræða þungt högg fyrir skipulagða glæpastarfsemi en áströlsk lögreguyfirvöld skipulögðu aðgerðina í samvinnu við FBI.

Von er á frekari upplýsingum um málið frá FBI og Europol í dag.

Meðal handteknu eru einstaklingar sem eru taldir vera tengdir mafíunni og skipulögðum glæpahópum. Þá hefur einnig verið lagt hald á vopn, eiturlyf og reiðufé þökk sé appinu, sem ber heitið ANOM.

Samkvæmt lögregluyfirvöldum á Nýja-Sjálandi, sem hafa handtekið 35 í tengslum við aðgerðina, hóf FBI að starfrækja ANOM eftir að hafa lokað tveimur öðrum spjallþjónustum sem glæpamenn nýttu sér.

Tækjum með appinu var dreift í „undirheimum“ og fyrst notað af hátt settum einstaklingum áður en aðrir fengu traust á því og fóru að nota það.

Ástralski fíkniefnasmyglarinn Hakan Ayik er sagður hafa gengt lykilhlutverki í aðgerðinni, þar sem hann mælti óafvitandi með appinu við félaga sína eftir að hafa fengið síma hjá dulbúnum lögreglumönnum.

Að sögn lögreglu var aðeins hægt að nálgast umrædda síma hjá öðrum glæpamönnum og hvorki hægt að nota þá til að hringja eða senda tölvupóst, aðeins nota ANOM.

Eftir að símarnir komust í dreifingu gat lögregla fylgst með milljónum skilaboða í rauntíma, þar sem lagt var á ráðin um morð, fíkniefnainnflutning og aðra glæpastarfsemi.

Lögregla hefur hvatt Ayik til að gefa sig fram en hans sé leitað í undirheimum.

Ítarlega frétt um málið er að finna hjá BBC.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×