Umfjöllun og viðtöl: Þór Þ. - Stjarnan 90-99 | Stjarnan tók forystuna í Þorlákshöfn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Arnþór Freyr og Larry Thomas eigast við í leik liðanna fyrr í vetur.
Arnþór Freyr og Larry Thomas eigast við í leik liðanna fyrr í vetur.

Stjarnan heimsótti Þór Þorlákshöfn í Icelandic Glacial höllina í kvöld. Jafnt var á öllum tölum fram að fjórða leikhluta en þá tóku gestirnir yfir og unnu að lokum mikilvægan níu stiga sigur. Lokatölur 90-99 og Stjarnan leiðir því 1-0 í einvíginu.

Það var ljóst strax frá byrjun að við værum að fara að fá jafnan og spennandi körfuboltaleik. Larry Thomas og Adomas Drungila opnuðu leikinn með sitthvorum þristinum.

Stjörnumenn voru svo sterkari aðilinn næstu mínúturnar, en Hlynur Bæringsson setti niður þrist sem kom af stað góðu áhlaupi. Gestirnir náðu sjö stiga forskoti þegar tæpar fjórar mínútur voru liðnar.

Gestirnir héldu forskoti sínu í smá stund, en Þórsarar skoruðu ellefu stig gegn fjórum stigum Stjörnunnar á lokakafla leikhlutans og fóru með tveggja stiga forskot í annan leikhluta.

Mikill hraði einkenndi fyrstu mínútur annars leikhluta. Liðin skiptust á að skora fyrstu mínúturnar. Þórsarar náðu þó að koma sér fimm stigum yfir þegar um sjö mínútur voru til hálfleiks.

Þórsarar gerðu eins og Stjarnan gerði í fyrsta leikhluta og héldu forskotinu í nokkrar mínútur. Stjarnan svaraði þó fyrir sig og þegar tæplega tvær og hálf mínúta voru til leikhlés var allt orðið jafnt aftur í stöðunni 40-40.

Hlynur Bæringsson setti niður þrist þegar nokkrar sekúndur voru eftir til að koma sínum mönnum einu stigi yfir og Lárus tók leikhlé fyrir heimamenn. Þá virtist eitthvað fara á milli Larry Thomas og Hlyns og Stjörnumenn létu vel í sér heyra á hliðarlínunni.

Dómarar leiksins eltu Larry inn í leikhléið og gáfu honum orð í eyra, en ekkert meira varð úr því. Larry fékk svo tvö vítaskot undir lok hálfleiksins sem hann nýtti og kom sínum mönnum aftur yfir áður en flautað var til hálfleiks. Staðan því 48-47 þegar gengið var til búningsherbergja og nóg af körfubolta eftir.

Það sama var uppi á teningnum í upphafi seinni hálfleiks. Þórsarar byrjuðu hálf brösulega, en náðu fljótlega að rétta sig af.

Um miðjan þriðja leikhluta kom hálfgerð stífla hjá báðum liðum og þau áttu erfitt með að finna greiða leið að körfu andstæðinganna.

Þórsarar tóku forystuna aftur, en hún varð aldrei mikil. Þegar þriðja leikhluta lauk var staðan 69-67, heimamönnum í vil, og spennandi lokamínútur framundan.

Gestirnir byrjuðu lokaleikhlutan mun betur og skoruðu fyrstu sjö stigin. Þórsarar áttu í miklum erfiðleikum sóknarlega og Stjarnan gekk á lagið og náði tíu stiga forskoti þegar tæpar þrjár mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta.

Heimamenn náðu aðeins að finna taktinn og koma sér aftur inn í leikinn. Þegar rúmar tvær mínútur voru eftir setti Dabbi Kónfur niður þrist og minnkaði muninn í fjögur stig.

Stjörnumenn spiluðu seinustu mínúturnar mjög skynsamlega og hleyptu Þórsurum aldrei nær. Heimamenn þurftu að reyna erfið skot á meðan að gestirnir settu niður hvert vítið á fætur öðru.

Að lokum fór það þannig að Stjarnan vann góðan níu stiga sigur, 99-90 og staðan því orðin 1-0 í einvíginu.

Af hverju vann Stjarnan?

Stjarnan hélt stöðugleika mun betur en andstæðingar sínir. Þeir héldu haus í fjórða leikhluta og kláruðu leikinn vel. Þórsarar hafa oft átt betri dag fyrir utan þriggja stiga línuna.

Hverjir stóðu upp úr?

Ægir Þór Steinarsson átti frábæran dag í liði Stjörnunnar. Hann skoraði 26 stig, tók 11 fráköst og gaf tíu stoðsendingar. Ekki slæmt það.

Larry Thomas var enn eina ferðina atkvæðamestur í liði Þórsara með 25 stig, sex fráköst og sex stoðsendingar.

Hvað gekk illa?

Skotnýting Þórsara var ekki til útflutnings í dag. Þeir hafa verið þekktir fyrir góða skotmenn í vetur, en 39% nýting er ekkert til að hrópa húrra yfir.

Hvað gerist næst?

Liðin mætast öðru sinni á fimmtudaginn klukkan 20:15 í Garðabæ.

Arnar: Það er gott að vera kominn yfir en það skiptir engu ef við töpum 3-1

Arnar Guðjónsson var léttur eftir sigur kvöldsins.Vísir/Bára

„Allur leikurinn var bara vel útfærður,“ sagði Arnar að leik loknum. „Þetta er hrikalega erfitt lið og gott að vinna en bara áfram gakk, það er 1-0.“

„Þeir skoruðu ekki 110 stig, var það ekki talan sem ég talaði um fyrir leik?“ sagði Arnar aðspurður um hvað hefði skilað sigrinum.

„Þetta er bara hrikalega erfitt lið og mér fannst Larry bara aldrei klúðra skoti í kvöld. En ég er bara feginn að hafa unnið. Þetta tók mikið úr okkur og nú er bara að fara heim og ná góðri endurheimt.“

Stjarnan tapaði 14 boltum í leiknum í kvöld og Arnar segir að liðið þurfi að gera einfaldari hluti í næsta leik til að fækka þeim.

„Við þurfum bara að fara í Óla Jóh fræðin í næsta leik. Bara blár sendir á bláan og höfum þetta einfalt. Við þurfum að gera það á heimavelli.“

Flestir telja það mikilvægt að vinna fyrsta leikinn í svona einvígi, og þá sérstaklega að taka forystuna á útivelli. Arnar segir þetta í raun ekki skipta neinu máli ef þeir fylgja þessu ekki eftir.

„Nú þurfum við bara tvo sigra og þeir þurfa þrjá. Það í rauninni breytir engu. Við þurfum bara að halda áfram og reyna að sækja næsta sigur.“

„Þetta er erfitt lið og þetta verður erfið sería. Það er gott að vera kominn yfir en það skiptir engu ef við töpum 3-1,“ sagði Arnar að lokum.

Lárus: Fljótt á litið er það bara skotnýting úr opnum færum sem fer með þetta

Lárus Jónsson var heilt yfir ánægður með spilamennsku liðsins en fannst vanta upp á skotnýtinguna.Vísir/Hulda Margrét

„Mér fannst þeir skora of auðveldlega á okkur,“ sagði Lárus Jónsson, þjálfari Þórs eftir leikinn. „Við hittum afleitlega úr opnum færum í leiknum.“

„Þess vegna varð þetta svona þröngt og það þrengdist alltaf hjá okkur. Mér fannst við búa til nokkuð opin færi þannig að í næsta leik setjum við þau bara niður.“

Þórsarar reyndu 43 þriggja stiga skot en aðeins 12 af þeim fóru niður. Lárus segir að þetta þurfi að batna í næsta leik.

„Já við þurfum betri nýtingu. Svo má auðvitað ráðast aðeins á körfuna því við vorum náttúrulega komnir í bónus í fjórða.“

„Jú kannski stjórnuðum við hraðanum aðeins í seinni en þá var leikurinn náttúrulega stoppaður fimm sinnum eða eitthvað til að skoða skjáinn þannig að þetta varð voðalega hægt í seinni hálfleik.“

„Ef maður skoðar tölfræðina eldsnöggt þá eru þeir með miklu fleiri tapaða bolta og við vorum að passa boltann vel. Mér fannst við spila ágætlega. Boltinn var að ganga vel og við vorum að fá opin skot. Fljótt á litið er það bara skotnýting úr opnum færum sem fer með þetta.“

Stjarnan var með tæplega 70% nýtingu úr tveggja stiga skotum og Lárus segir að sínir menn hafi oft á tíðum gefið þeim of auðveld stig.

„Þeir voru að skora auðveldlega í kringum körfuna. Mér fannst Lindqvist vera að fá aðeins of auðveldar körfur.“

„Svo auðvitað var Ægir góður að fara á körfuna og Hlynur líka þannig að þeir voru að fá mikið frá mörgum af póstunum. Á meðan vorum við kannski ekki að ná upp hraðanum og ekki að ná að fara eins mikið á körfuna til að opna þriggja stiga skotin ennþá betur.“

Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira