Körfubolti

Má alveg velta fyrir sér hversu gáfuleg ákvörðun það var að láta hana sitja út af á þessum tímapunkti

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lovett í leiknum á fimmtudag.
Lovett í leiknum á fimmtudag. Vísir/Bára Dröfn

Valur vann Hauka í fyrsta leik úrslitaeinvígis Domino´s deildar kvenna á fimmtudagskvöld. Ákvörðun þjálfara Hauka að kippa Alyeshu Lovett af velli í síðari hálfleik vakti athygli Domino´s Körfuboltakvölds.

„Þarna voru þær að ná þessu niður og munurinn kominn niður í 10 stig, þá taka þeir hana út af og lætur hana sitja í tvær og hálfa mínútu. Tvær og hálf mínúta í körfuboltaleik er hellingstími,“ sagði Pálína þáttastjórnandi.

Valur gerði nánast út um leikinn í fyrsta leikhluta en staðan að honum loknum var 18-2. Haukar náðu að klóra í bakkann en Valur vann leikinn samt sem áður með 13 stiga mun, lokatölur 58-45.

„Þetta var svolítið sérstakt. Hún skiptir ótrúlega miklu máli upp á sóknina hjá Haukunum og má alveg velta fyrir sér hversu gáfuleg ákvörðun það var að láta hana sitja út af á þessum tímapunkti. Mér fannst kannski þarna í fjórða leikhluta þar sem hún var orðin pirruð og maður sá að hún ætlaði að gera þetta allt sjálf. Á þeim tímapunkti hefði ég kannski tekið hana út af,“ sagði Ragna Margrét Brynjarsdóttir, annar af sérfræðingum þáttarins áður en Bryndís Guðmundsdóttir greip orðið.

„Hún er leikmaður sem á að vera spila 38 til 39 mínútur í hverjum einasta leik. Hún þarf bara að koma sér í gang. Ég skil ekki af hverju hann [Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka] er að taka hana út af. Það var allt einhvern veginn komið með henni, hún var búin að stela boltanum, hún komst upp í auðvelt snið skot og þá var henni kippt á bekkinn til að kæla hana niður,“

Hér að neðan má sjá umræðuna um Lovett sem og viðtal við hana sem var tekið eftir leikinn.

Klippa: Af hverju var Lovett hvíld?

Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.