Umfjöllun og viðtöl: Valur - KR 103-115 | KR-ingar unnu í þriðja sinn á Hlíðarenda

Árni Jóhannsson skrifar
Valur - KR. Baráttan heldur áfram en KR leiðir einvígið.
Valur - KR. Baráttan heldur áfram en KR leiðir einvígið. Bára Dröfn Kristinsdóttir

KR er komið í 2-1 gegn Val í átta liða úrslitum Domino's deildar karla. Liðin hafa mæst fimm sinnum í vetur og allir leikirnir unnist á útivelli.

Það varð engin breyting á sigurvegara í Origo höllinni þegar Valur og KR mættust í kvöld í átta liða úrslitum Dominos deildar karla. Útiliðið vann en það sem var öðruvísi var að sigurinn var með meira en 10 stigum. Valur vann útileikinn á móti KR í deildarkeppninni en nú unnu KR-inar 103-115. 

Leikurinn var hraður allar 40 mínúturnar og byrjuðu liðin skotsýningu sína mjög snemma en á annarri mínútu var staðan 8-8 og stigaskorið reis bara það sem eftir var af fyrsta leikhluta. Varnir voru nánast engar framan af en að sama skapi var þetta mikil skemmtun og góð auglýsing fyrir körfubolta á Íslandi. Heimamenn hertu varnarleik sinn um stund í lok leikhlutans og voru yfir 34-27 þegar 10 mínútur voru búnar. 

KR náði einnig að herða sinn varnarleik um stund í öðrum leikhluta þangað til að þeir náðu að jafna en svo fóru liðin aftur í að skora og skora. Staðan í hálfleik var jöfn, 59-59 og gangur leiksins þannig ða höggin dundu á hvoru liði um sig og það var eins og ekkert væri hægt að aðhafast og var það mál manna að það þyrfti að óska eftir varnarleik.

Miguel Cardoso var hreint út sagt frábær í fyrri hálfleik og var hann kominn með 27 stig og manna langbestur. Tyler Sabin og Brandon Nazione drógu vagninn fyrir sína menn og áttu eftir að koma mikið betur við sögu í seinni hálfleik.

KR kom hraðar út úr hálfleiknum og skoraði Sabin tvo snögga þrista til að koma sínum mönnum yfir og misstu þeir ekki forskotið það sem eftir var af seinni hálfleik. Um miðjan þriðja leikhluta voru KR-ingar komnir 10 stigum yfir en þeir gátu þakkað að þeir bundu saman vörn og sókn ásamt því að hittni þeirra var til fyrirmyndar og voru Tyler Sabin og Brandon Nazione sem sáu helst um stigaskor sinna manna í kvöld. Valsmenn virtust ekki hafa orkuna til að draga gestina nógu nálægt sér. Þegar þriðja leikhluta var lokið var staðan 78-90 og var það mesti munurinn á liðunum í einvíginu.

Valsmenn hótuðu því þó að koma til baka og voru komnir undir 10 stiga muninn en á ögurstundu duttu þeir í að reyna einstaklingsframtakið og KR náði að stöðva þá og skora á móti og skora einnig á móti þegar Valsmenn skoruðu. Munurinn var þægilegur allt til loka og í fyrsta sinn í seríunni náðu þjálfararnir að tæma bekkina sína og leikurinn leið út og endaði 103-115.

Afhverju vann KR?

Tyler Sabin. Hann var stórkostlegur. Hann fékk alveg hjálp frá sínum mönnum en kappinn skoraði 35 stig og gaf 11 stoðsendingar þannig að hann stýrði sóknarleik sinna manna. Sóknarleikurinn vann leikinn og Tyler var stærsti þátturinn í því. Að auki var hann með 81% skotnýtingu og 42 framlagspunkta.

Þó þarf að minnast á það að þegar Pavel Ermolinski lauk leik þá varð það ekki auðveldara fyrir Valsmenn að verjast inn í teig. Villurnar sem kláruðu leikinn fyrir Pavel voru mjög umdeildar, vægast sagt, og það er spurning hvort heimamenn hefðu getað farið lengra í þessum leik með Pavel innanborðs.

Bestir á vellinum?

Títt nefndur Tyler Sabin var langbestur. Honum næstur var Brandon Nazione sem var einnig frábær og skilaði 33 stigum, níu fráköstum, fjórum stoðsendingum og tveimur stolnum boltum.

Hjá Val var Miguel Cardoso stigahæstur en hann skoraði 34 stig þar sem 27 þeirra komu í fyrri hálfleik. Hans hefði þurft hugsanlega að njóta lengur við ef Valsmenn hefðu átt að hanga í KR miðað við það hvernig leikurinn þróaðist.

Tölfræði sem vakti athygli?

Ég talaði um það fyrir leik að ef KR ætlaði sér að vinna leikinn þá þyrftu þeir að stíga betur út. Þeir gerðu það en í seinasta leik náðu Valsmenn 27 sóknarfráköstum en þau urðu ekki nema 12 í þessum leik. Þannig gátu KR-ingar komið í veg fyrir að heimaemnn næðu í seinni tækifærin í sókn sinni og byggt upp mun með því að hitta vel úr skotunum.

Hvað næst?

Valur er komið með bakið upp við vegginn og næsti leikur fer fram í DHL höllinni í Vesturbænum á miðvikudaginn næstkomandi. Valsmönnum líður kannski vel með það en útiliðið hefur alltaf unnið hingað til í einvíginu.

Finnur Freyr: Við verðum bara að finna okkar styrkleika aftur

„Við misstum þennan leik upp í þeirra leik í tempó-i. Við einhvern veginn náðum aldrei að klukka þá og vorum alltaf eftir á. Ofan á það þá skutu þeir boltanum vel eins og þeir gera. KR-ingar voru bara heilt yfir betri aðilinn í dag“, sagði Finnur Freyr Stefánsson þjálfari Valsmanna strax eftir ósigur sinna manna í kvöld gegn KR.

Miguel Cardoso var frábær fyrir Val í fyrri hálfleik en var minna áberandi í þeim seinni. Finnur var spurður hvað hann sæi í leiknum sem olli þeirri þróun.

„Við leituðum kannski ekki nógu mikið að honum í seinni hálfleik. Sóknarleikurinn var ekki vandamálið í kvöld eins og ég sagði. Það var heldur að við náðu aldrei að klukka þá.“

Í fjórða leikhluta, þegar Valur var að reyna að vinna muninn niður, þá leiddust Valsmenn út í einstaklingsframtakið sem klikkaði. Finnur var spurður að því hvort hann væri sammála því. 

„Já við vorum að þröngva allt of mikið og allt of snemma í sóknunum vorum við að fara af stað í einhverja hluti. Það var ekki að ganga upp hjá okkur og við verðum bara að finna okkar styrkleika aftur. Við gerðum það í síðustu leikjum og þurfum að gera það aftur. Við þurfum að draga lærdóm af þessum leik. KR var betra liðið og við þurfum að fara og skoða myndbandið og leitum að lausnum.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.