Umfjöllun: KR - Valur 84-85 | Annar spennutryllir og allt jafnt

Árni Jóhannsson skrifar
Vali KR
vísir/bára

Valur er búið að jafna metin gegn grönnum sínum í KR í átta liða úrslita einvígi liðanna í Domino's deild karla.

Leikurinn í kvöld var keimlíkur þeim sem fram fór á sunnudaginn síðasta en minnsti mögulegi munur virðist vera á liðunum þó að ekki var skipst á forystu eins oft og í síðasta leik. Valur vann leikinn 84-85 en leikið var í DHL höllinni. 

Liðin skiptust á höggum eins og margreyndir hnefaleikakappar alveg frá fyrstu mínútu en KR-ingar tóku frumkvæðið og komust mest átta stigum yfir í fyrsta fjórðung. Valsmenn hittu ekki nógu vel en frákastabarátta þeirra var alveg til fyrirmyndar. Þeir náðu að laga muninn örlítið í lok fyrsta fjórðungs og var staðan 31-28 í lok hans.

Annar leikhluti var alveg eins nema að Valsmenn náðu að stöðva KR í sínum aðgerðum sóknarlega og snúa skipinu við. Komust þeir yfir um miðbik annars fjórðungs og komust mest sex stigum yfir en sökum þess að þeir hittu ekki nógu vel þá náðu þeir ekki að slíta sig lengra frá heimamönnum en KR fann takt sinn aftur undir lok hálfleiksins og gengu liðin til búningsherbergja í stöðunni 46-48 og þurftu allir á hvíldinni að halda en leikurinn var mjög hart leikinn.

Í hálfleik höfðu Valsmenn tekið hvorki meira né minna en 18 sóknarfráköst og átti Hjálmar Stefánsson 10 af þeim. Það var það sem hélt þeim á lífi enda hittu Valsmenn mun verr en KR.

Í þriðja fjórðung náði Valur stærsta forskoti í leiknum og einvíginu en þeir komust 10 stigum yfir með því að ná að binda saman vörn sína og sóknarleik. Það skapaði forskotið og var staðan 62-72 þegar lokafjórðungurinn var eftir.

KR kom út í fjórða fjórðung af fítonskrafti og dró Valsmenn að sér og jafnaði metin í 74-74 en Valur náði aftur forystunni og hélt KR alltaf fyrir aftan sig. Lokaandartökin voru svakaleg eins og í fyrsta leiknum og í stöðunni 84-85, með 10 sekúndur eftir, ætluðu KR-ingar sér að brjóta en dómarar leiksins dæmdu ekki og voru menn ósáttir við það. KR náði að brjóta og senda Valsmenn á línuna en Cardoso klikkaði á tveimur vítum og lokaskot KR geigaði enda af sínum eigin vallarhelming og Valur landaði sigringum.

Staðan er þar með 1-1 í einvíginu og staðan stigalega jöfn einnig enda liðin unnið sinn leikinn hvort með einu stigi.

Afhverju vann Valur?

Það sem að bjargaði Val í dag voru sóknarfráköstinn. Þeir tóku 27 sóknarfráköst í dag sem skilaði þeim 18 stigum í seinna tækifærinu svokallaða. Ef Valur hefði ekki náð þessum sóknarfráköstum þá hefði örugglega ekki þurft að spyrja að leikslokum en Valur hitti ekki nógu vel á löngum köflum.

Bestir á vellinum?

Stigahæstir voru Miguel Cardoso með 18 stig og Tyler Sabin með 23 stig en maður leiksins ætti með réttu að vera Hjálmar Stefánsson enda tók hann 11 sóknarfráköst í kvöld ásamt því að skora 13 stig. Fráköstin voru það sem skildu liðin að í kvöld og Hjálmar var mjög duglegur í sínu hlutverki í kvöld.

Tölfræði sem vakti athygli.

Í seinasta leik þá skiptust liðin 22 sinnum á að hafa forystuna og 13 sinnum var jafnt. Í kvöld var ekki skipst á forystunni nema 5 sinnum og fjórum sinnum var jafnt. Ekki er nein skýring á þessum mun en Valsmenn höfðu undirtökin í kvöld og náðu að setja sitt fingrafar á þennan leik og því fór sem fór. 

Hvað næst?

Það er aftur það sama væntanlega á sunnudaginn næstkomandi. Þá snúum við aftur á Hlíðarenda og það verður væntanlega hart barist áfram og liðin eru væntanlega bæði komin í ísbað og almenna hvíld fyrir átökin um helgina.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira