Innlent

Blin­ken fundar með Guðna, Katrínu og Guð­laugi Þór

Atli Ísleifsson skrifar
Blinken og Guðlaugur Þór hittust klukkan 10 í Hörpu. Blaðamannafundur þeirra er klukkan 11:20 og verður í beinni á Vísi.
Blinken og Guðlaugur Þór hittust klukkan 10 í Hörpu. Blaðamannafundur þeirra er klukkan 11:20 og verður í beinni á Vísi. Vísir/Vilhelm

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna sem kom til landsins í gær, mun funda með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra klukkan tíu. Að þeim fundi loknum hefur verið boðað til blaðamannafundar í Hörpu og verður sá fundur í beinni útsendingu á Vísi.

Blinken mun síðan funda með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra klukkan eitt og klukkutíma síðar hittir hann Guðna Th. Jóhannesson forseta Íslands.

Að þeim fundi loknum fara þeir Blinken og Guðlaugur Þór í heimsókn í Hellisheiðarvirkjun þar sem ráðherrann bandaríski fær kynningu á Carbfix-verkefninu.

Vísir/Vilhelm

Blinken og föruneyti hans kom til landsins í gærkvöldi, en hann sækir Ísland heim í tengslum við fund Norðurskautsráðsins sem haldinn er í Reykjavík. Fundurinn hefst á morgun og markar lok tveggja ára formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu.

Vegna kórónuveirufaraldursins er fundurinn haldinn með breyttu sniði að þessu sinn og þátttaka takmörkuð við utanríkisráðherra norðurskautsríkjanna átta, auk ráðherra Færeyja og Grænlands, og samtök frumbyggja. Aðrir taka þátt í gegnum fjarfundarbúnað.

Vísir/Vilhelm

Fundurinn hefst með vinnukvöldverði utanríkisráðherranna átta annað kvöld og daginn eftir fer svo eiginlegur fundur þeirra fram. 

„Þar er búist við að ráðherrayfirlýsing ráðsins verði samþykkt, svonefnd Reykjavíkuryfirlýsing, auk stefnu ráðsins til næstu tíu ára. Á fundinum afhendir svo Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands formennskukeflið en Rússar taka nú við formennsku í ráðinu,“ segir á vef stjórnarráðsins.

Vísir/Vilhelm

Fréttin var uppfærð klukkan 10 með mynd af Guðlaugi Þór og Blinken, þegar þeir hittust klukkan 10.


Tengdar fréttir

Blinken lentur á Keflavíkurflugvelli

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er lentur á Keflavíkurflugvelli. Ráðherrann mun funda með forseta Íslands, forsætisráðherra og utanríkisráðherra á morgun en hann er kominn hingað til lands til að sækja fund Norðurskautsráðsins á miðvikudag.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.