Arnór hefur verið í sóttkví í alls fjórar vikur af síðustu fimm en tvívegis hafa hann og liðsfélagar hans þurft að fara í tveggja vikna sóttkví eftir að smit kom upp í leikmannahóp Bergischer. Handbolti.is greindi frá.
„Ég losna úr fjórtán daga sóttkví á miðnætti og síðan er leikur strax á morgun,“ sagði Arnór Þór við handbolti.is í gær.
Hann hefur ekki greinst með Covid-19 en alls farið 10 sinnum í skimun.
Spilað mjög þétt
Liðið kom eins og áður sagði úr sóttkví á miðnætti og á leik gegn Essen á útivelli síðar í dag.
„Við eigum eftir 14 leiki í deildinni og verðum að ljúka þeim fyrir 27. júní. Þar af leiðandi verðum við að spila á 3-4 daga fresti fram til loka júní til að ljúka öllum leikjum,“ sagði Arnór Þór að endingu við handbolti.is.
Bergischer er í 8. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar með 27 stig að loknum 24 leikjum. Liðið er aðeins þremur stigum frá 6. sætinu en það gefur þátttökurétt í Evrópudeildinni.