Erlent

Hafa borið kennsl á 32 hinna látnu

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Minnst 45 létust í slysinu.
Minnst 45 létust í slysinu. EPA-EFE/ATEF SAFADI

Kennsl hafa verið borin á 32 þeirra sem létust í átroðningi á fjölmennri trúarhátíð í Ísrael í fyrrakvöld. Minnst 45 létust í slysinu og á annað hundrað særðust.

Hlé var gert á vinnunni við að bera kennsl á líkin í gærkvöldi, vegna Sabbath sem er heilagur hvíldardagur Gyðinga. Gert er ráð fyrir að vinna við að bera kennsl á hina látnu haldi áfram eftir sólsetur í kvöld að því er fram kemur í frétt BBC.

Hátíðin Lag B'Omer er haldin á átjánda degi iyar, áttunda mánuði hebreska tímatalsins. Þá ferðast tugir þúsunda rétttrúnaðargyðinga til bæjarins Meron, dansa, leggjast á bæn og minnast rabbínans Shimons bar Yochai. Hátíðarhöldum er að miklu leyti skipt eftir kynjum og átti slys gærdagsins sér stað karlamegin.

Mikill fjöldi tróðst þannig undir þegar mannmergð reyndi að koma sér í gegnum þröngan gang og niður sleipar málmtröppur, að því er AP-fréttaveitan hefur eftir sjónarvottum. Ísraelska blaðið Haaretz segir að fólk hafi dottið í tröppunum og þannig fellt aðra.

Talið er að nokkrir hinna látnu hafi verið erlendir ríkisborgarar, meðal annars Bandaríkjamenn og þá er 24 ára gamall Breti sagður meðal hinna látnu.

Ísraelska heilbrigðisráðuneytið hefur sagt að hugsanlega þurfi að greina bæði fingraför og tennur til að bera kennsl á hina látnu. Þjóðarsorg var lýst yfir í Ísrael vegna slyssins.


Tengdar fréttir

Tugir látnir á fjölmennri trúarhátíð í Ísrael

Að minnsta kosti fjörutíu og fjórir eru látnir á fjölmennri trúarhátíð í norðausturhluta Ísraels. Tugir eru slasaðir að auki en fólkið tróðst undir í mannmergðinni. Um árlega samkomu er að ræða sem haldin er í hlíðum Meron fjalls.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.