Körfubolti

Skalla­grímur og Kefla­vík höfðu betur gegn botn­liðunum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Keflavík hafði betur gegn Snæfell á heimavelli.
Keflavík hafði betur gegn Snæfell á heimavelli. vísir/hulda

Keflavík og Skallagrímur unnu leiki sína í Domino's deild kvenna er liðin höfðu betur gegn Snæfell og KR í annarri umferð deildarinnar eftir kórónuveiruhlé.

Keflavík lenti ekki í miklum vandræðum með næst neðsta lið deildarinnar, Snæfell á heimavelli, en lokatölurnar urðu 91-67.

Keflavík lagði grunninn að sigrinum í öðrum leikhlutanum sem þær unnu 27-9 en Keflavík tapaði fyrsta leiknum eftir hlé gegn Skallagrími.

Daniela Wallen Morillo var stórkostleg í liði Keflavíkur. Gerði hún 36 stig, tók fimmtán fráköst og gaf átta stoðsendingar. Agnes María Svansdóttir kom næst með ellefu stig en Salbjörg Ragna Sævarsdóttir skilaði einnig góðu framlagi; fjórum stigum og tíu fráköstum.

Í liði gestanna var Haiden Denise Palmer með 22 stig og tíu fráköst. Anna Soffía Lárusdóttir gerði átján stig, tók níu fráköst og gaf þrjár stoðsendingar en Snæfell er í næst neðsta sætinu á meðan Keflavík er í öðru sætinu með 26 stig.

Skallagrímur vann annan leikinn í röð eftir kórónuveiruhlé er liðið hafði betur gegn botnliði KR á útivelli, 88-80. Mikið jafnræði var með liðinu í leiknum í dag en gestirnir úr Borgarnesi voru ávallt skrefinu á undan.

Keira Breeanne Robinson var stórkostleg í liði gestanna með 37 stig, átta fráköst og fjórar stoðsendingar. Sanja Orozovic kom næst með nítján stig en Embla Kristínardóttir gerði þrettán stig, tók sjö fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Í liði KR var það Annika Holopainen sem var stigahæst. Hún gerði 27 stig, tók sex fráköst og gaf þrjár stoðsendingar. Taryn Ashley Mc Cutcheon kom næst með 23 stig, fjögur fráköst og sex stoðsendingar en aðrir leikmenn minna.

KR er á botninum með fjögur stig en Skallagrímur er í fimmta sætinu með sextán stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.