Körfubolti

Elvar stiga- og stoðsendingahæstur á vellinum í fjórða sigri Siauliai í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elvar Már Friðriksson hefur verið einn besti leikmaður litháísku úrvalsdeildarinnar í vetur.
Elvar Már Friðriksson hefur verið einn besti leikmaður litháísku úrvalsdeildarinnar í vetur. vísir/bára

Elvar Már Friðriksson var stiga- og stoðsendingahæstur á vellinum þegar Siauliai vann Lietkabelis, 97-87, í litháísku úrvalsdeildinni í körfubolta í dag.

Þetta var fjórði sigur Siauliai í röð en liðið er í 7. sæti deildarinnar og hefur heldur betur rétt úr kútnum eftir erfiða byrjun á tímabilinu.

Elvar skoraði 23 stig, tók fjögur fráköst og gaf ellefu stoðsendingar í leiknum í dag. Njarðvíkingurinn var bæði stiga- og stoðsendingahæstur á vellinum.

Elvar lék í 36 mínútur í leiknum og hitti úr sjö af fjórtán skotum sínum utan af velli og nýtti átta af níu vítaskotum sínum. Hann skilaði 29 framlagsstigum, flestum allra leikmanna á vellinum.

Siauliai á átta leiki eftir í deildarkeppninni en úrslitakeppnin hefst svo í byrjun næsta mánaðar.

Elvar hefur átt afar gott tímabil með Siualiai og er stoðsendinga- og framlagshæsti leikmaður litháísku deildarinnar. Elvar var valinn leikmaður nóvember-mánaðar í deildinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.