Erlent

Bóluefni virðast örugg og veita bæði móður og barni vörn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Óléttar konur eru í aukinni áhættu þegar kemur að Covid-19.
Óléttar konur eru í aukinni áhættu þegar kemur að Covid-19.

Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til þess að það sé bæði öruggt og áhrifaríkt að bólusetja þungaðar konur. Þá benda þær til þess að bólusetning veiti barninu einnig vörn gegn Covid-19.

Fleiri en 82 þúsund óléttar konur hafa greinst með Covid-19 í Bandaríkjunum og 90 hafa látist af völdum sjúkdómsins. Lyfjafyrirtækin vinna nú að eigin rannsóknum, þeirra á meðal Pfizer, þar sem 4 þúsund þungaðar konur verða bólusettar.

Niðurstöðurnar hér að ofan birtust nýlega í The American Journal of Obstetrics and Gynecology. Þátttakendur voru 131 og höfðu allir verið bólusettir með bóluefnum frá annað hvort Pfizer eða Moderna.

Konurnar voru á aldrinum 18 til 45 ára en 84 voru óléttar þegar þær voru bólusettar, 31 með barn á brjósti og 16 ekki þungaðar. Blóðprufur voru teknar eftir fyrri skammt, eftir seinni skammt og sex vikum eftir seinni skammt.

Þegar niðurstöðurnar voru bornar saman við ónæmi meðal kvenna sem höfðu greinst með Covid-19 á meðgöngu, kom í ljós að ónæmisviðbragðið af völdum bóluefnanna var öflugra. Það gefur til kynna að jafnvel þótt einstaklingur hafi fengið Covid-19 veiti bólusetning meiri vörn.

Aukaverkanir voru almennt vægar, meðal annars sársauki á stungustað, vöðvaverkir og hiti.

Það sem kom hins vegar ef til vill mest á óvart var að ónæmisfrumur fundust í blóðinu úr naflastrengnum og í brjóstamjólkinni. Þetta bendir til þess að fóstrið eða barnið öðlist einnig einhverja vernd þegar konan er bólusett.

Þótt dauðsföll og alvarleg veikindi af völdum Covid-19 séu fremur fátíð eru óléttar konur í aukinni áhættu. Sérfræðingar segja að frekari rannsókna sé þörf en niðurstöðurnar séu engu að síður jákvæðar, þar sem engar alvarlegar aukaverkanir hafa komið upp og fram til þessa bendi allt til þess að bólusetningar gætu bætt líkur þungaðra kvenna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×