Innlent

Stað­festir höfnun á inn­flutningi fugla sem voru af­lífaðir fyrir þremur árum

Kjartan Kjartansson skrifar
Skrautfuglarnir voru af mörgum stærðum og gerðum. Þeirra á meðal voru gárar eins og þessi.
Skrautfuglarnir voru af mörgum stærðum og gerðum. Þeirra á meðal voru gárar eins og þessi. Stöð 2

Tæpur þremur árum eftir að á þriðja hundrað skrautfuglar voru aflífaðir að kröfu Matvælastofnunar hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið staðfest ákvörðun stofnunarinnar um að hafna innflutningi á fuglunum.

Gæludýraverslunin Dýraríkið í Holtagörðum flutti inn 358 unga skrautfugla frá Hollandi í febrúar árið 2018. Þeir voru hafðir í sóttkví sem átti upphaflega að standa yfir í fjórar vikur. Sníkjudýr greindist í fuglunum í sóttkvínni, þar á meðal svonefndur norrænn fuglamítill í fyrsta skipti á Íslandi.

Norræni fuglamítillinn er sagður þekktur skaðvaldur erlendis, meðal annars á alifuglabúum. Hætta hafi verið á að smit bærist í aðra fugla og að mítillinn næði fótfestu hérlendis með tilheyrandi tjóni.

Töluverðar deilur upphófust á milli eigenda Dýraríkisins og Matvælastofnunar vegna fuglanna. Stofnuni krafðist þess að þeir yrðu aflífaðir en eigendurnir töldu hægt að meðhöndla þá með lyfjum. Úr varð að 232 fuglar sem eftir lifðu voru aflífaðir í júlí 2018. Þá höfðu 37% þegar drepist í sóttkvínni, að því er kemur fram í ákvörðun ráðuneytisins um að staðfesta höfnun innflutningsins sem var birt í dag.

Ráðuneytið féllst ekki á rök innflytjandans um að Matvælastofnun hefði hvorki sinnt rannsóknarskyldu sinni né gætt meðalhófs við meðferð málsins. Matvælastofnun hefði kannað hvort hægt væri að útrýma mítlinum en taldi að ekki væri hægt að sýna fram á fullnægjandi aðferð til þess.

„Ráðuneytið taldi að ekki væri hægt að tryggja að smit bærist ekki í aðra fugla í landinu. Samkvæmt 15. gr. laga um innflutning dýra bæri Matvælastofnun að hefta útbreiðslu smitsjúkdóma sem upp koma í einangrunarstöðvum. Var því höfnun innflutnings staðfest af ráðuneytinu,“ segir í ákvörðuninni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×