Körfubolti

„Hjálmar og Kristófer settu tóninn varnar­­lega“

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Jón Arnór í leik með Valsliðinu fyrr í vetur.
Jón Arnór í leik með Valsliðinu fyrr í vetur. vísir/vilhelm

„Við náum nokkrum stoppum í lokin,“ sagði Jón Arnór Stefánsson, leikmaður Vals, eftir nauðsynlegan sigur liðsins á ÍR í Domino's deild karla í kvöld.

Valsmenn hafa verið með bakið upp við vegg og voru undir í hálfleik á Hlíðarenda í kvöld. Þeir stigu á bensíngjöfina í síðari hálfleik og tryggðu sér mikilvægan sigur.

„Við bara ákváðum það að koma inn í seinni hálfleikinn, missa ekki trúna á því sem við vorum að gera og aðallega að fá fókus í varnarleikinn og þessa svæðisvörn sem þeir spiluðu.“

„Við áttum í vandræðum með hana á köflum en við vissum að sóknin kæmi með vörninni og vorum búnir að læsa það inni fannst okkur og það bara gekk eftir.“

„Mér fannst krafturinn sérstaklega í fyrsta varnarmanninum af öllum öðrum helvíti góður og það er það sem við viljum sjá frá honum og okkur í næstu leikjum.“

Hjálmar Stefánsson gekk í raðir Vals á dögunum og Jón Arnór fagnar komu hans.

„Hann gefur okkur auðvitað rosalega mikla lengd varnarlega, frákastlega, frábæra að slassa að körfunni, getur sett niður skot. Það gefur okkur mjög mikið og þannig getum við líka skipt milli varnarliða; milli stórra manna og bakvarða.“

„Hann er að breyta dýnamíkinni hjá okkur rosalega mikið. Hann og Kristó settu tóninn varnarlega fyrir okkur og það er það sem við viljum fá frá honum,“ sagði Jón Arnór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×