Handbolti

Landin ekki á leið í stjörnu­lið Ála­borgar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það eru fáir betri en Niklas Landin í sínu fagi.
Það eru fáir betri en Niklas Landin í sínu fagi. Marius Becker/Getty Images

Danski landsliðsmarkvörðurinn Niklas Landin Jacobsen hefur framlengt samning sinn við þýska úrvalsdeildarfélagið THW Kiel. Er hann nú samningsbundinn til 30. janúar árið 2025. Þetta vekur athygli þar sem talið að hann væri á leið heim.

Niklas Landin var ein af þeim dönsku ofurstjörnum sem hafa verið orðaðar við Álaborg undanfarið en liðið hefur verið að safna liði fyrir komandi tímabil. Einn albesti leikmaður heims, Mikkel Hansen, er á leiðinni til félagsins og Mads Mensah sömuleiðis. 

Þá hefur Bjarki Már Elísson verið orðaður við félagið eftir að samningur hans við Lemgo rennur út.

Talið var að hinn 32 ára Landin yrði markvörður stjörnuliðs Álaborgar en nú hefur verið staðfest að svo verði ekki. Landin skrifaði undir nýjan samning við Kiel og fer ekki fet að því virðist fyrr en eftir tæp fjögur ár.

Landin hefur leikið í Þýskalandi frá árinu 2012 og verður þar áfram. Hann gekk í raðir Rhein-Neckar Löwen frá Bjerringbro-Silkeborg á þeim tíma og samdi svo við Kiel árið 2015. Þar hefur hann verið allar götur síðan og staðið sig með prýði.

Landin er mjög sigursæll og vann til að mynda Meistaradeild Evrópu með Kiel á síðasta ári sem og þýsku úrvalsdeildina. Til að bæta um betur þá varð hann einnig heimsmeistari með Dönum nú fyrr á þessu ári.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.