Handbolti

Segir Han­sen ekki tapa fjár­hags­lega á skiptunum heim til Dan­merkur

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hansen léttur á HM í Egyptalandi þar sem Danir stóðu uppi með gullið.
Hansen léttur á HM í Egyptalandi þar sem Danir stóðu uppi með gullið. EPA-EFE/Mohamed Abd El Ghany

Troels Troelsen, íþróttahagfræðingur, segir að Mikkel Hansen muni ekki fá verr greitt í Danmörku en hann gerir í Frakklandi. Þetta segir hann í löngu viðtali við BT um skiptin frá PSG til Álaborgar.

Tilkynnt var fyrir helgi að Hansen skiptir heim til Danmerkur, nánar tiltekið til Álaborgar, sumarið 2022 er samningur hans í Frakklandi rennur út. Skiptin vöktu mikla athygli enda Hansen einn besti handboltamaður í heimi.

Í París er Hansen á samningi sem gefur honum um 4,6 milljónir útborgað á mánuði en skattur í Frakklandi er ansi hár — fyrir þá sem þéna vel. Það mun breytast er hann skiptir París út fyrir „París norðursins“; Álaborg.

„Ef maður reiknar þetta þá sér maður að hann mun ekki tapa á skiptunum. Maður horfir á það sem er eftir. Í Frakklandi eru engar sérreglur fyrir íþróttastjörnur. Hann borgar í kringum 60% í skatt en í Danmörku verður það 27%,“ sagði Troels.

Troels segir einnig í viðtalinu að hann geti einnig betur nýtt sitt stóra nafn í Danmörku en Frakklandi. Þar sé handboltinn stærri og Hansen einnig stærra nafn. Hansen er einnig með sínar eigin vörur sem hann getur vakið enn meiri athygli á og Troels segir að hann sé jafn vel settur í Danmörku fjárhagslega séð, ef ekki betur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×