Handbolti

Langt því frá hættir eftir komu Han­sen: Nýtt stjörnu­lið í líkingu við AG?

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ólafur Stefánsson í leik með AG gegn Savehof í Meistaradeildinni árið 2010.
Ólafur Stefánsson í leik með AG gegn Savehof í Meistaradeildinni árið 2010. Lars Ronbog/Getty

Álaborg tilkynnti í gær að Mikkel Hansen muni spila með liðinu frá sumrinu 2022. Skiptin vöktu mikla athygli enda Hansen einn albesti leikmaður heims að snúa aftur heim.

Danskir fjölmiðlar fjölluðu vel um skiptin í gær en Hansen hefur verið í herbúðum PSG frá 2012. Hann er alinn upp hjá GOG en gerði þriggja ára samning við Álaborg frá sumrinu 2022.

Arnór Atlason er þjálfari Álaborgar sem hefur orðið danskur meistari síðustu tvö ár og þeir stefna enn hærra á næstu árum. Þeir vilja fara alla leið í Final 4 í Meistaradeildinni.

Eins og áður segir hefur Hansen skrifað undir samning og nú er talið að samherji hans úr landsliðinu, Mads Mensah, skrifi einnig undir samning við Álaborgarliðið. Mensah er með samning við Flensburg til sumarsins 2022.

Það eru þó ekki bara þessir tveir sem eru á leiðinni. Norski hornamaðurinn Kristian Bjørnsen frá Wetzlar og sænski línumaðurinn Jesper Nielsen hjá Rhein Neckar Löwen eru einnig taldir á leiðinni til danska liðsins.

Það bendir því allt til þess að Álaborg stilli upp liði sem margt um minnir á liðið AG Kaupmannahöfn sem var lifandi á árunum 2010 til 2012.

Liðið var algjört stjörnulið og Mikkel Hansen var einmitt hluti af því liði, sem og Mads Mensah. Arnór Atlason, Guðjón Valur Sigurðsson, Snorri Steinn Guðjónsson og Ólafur Stefánsson léku með liðinu.

Þeir urðu meistarar bæði tímabil sín í danska boltanum áður en þeir urðu gjaldþrota sumarið 2012. Einnig fóru þeir í úrslitahelgi Meistaradeildarinnar tímabilið 2011/2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×