Innlent

Mæla hvort kvikugas streymi til yfirborðs

Kristján Már Unnarsson skrifar
Sérfræðingur Veðurstofu Íslands, Melissa Anne Pfeffer, mælir kvikugas í Svartsengi síðastliðinn miðvikudag.
Sérfræðingur Veðurstofu Íslands, Melissa Anne Pfeffer, mælir kvikugas í Svartsengi síðastliðinn miðvikudag. Vilhelm Gunnarsson

Jarðvísindamenn fylgjast náið með því hvort einhverjar vísbendingar sjáist um kvikuhreyfingar í tengslum við jarðskjálftahrinuna á Reykjanesskaga. Einn liður í eftirlitinu eru daglegar mælingar á gasuppstreymi.

„Mælingar hingað til gefa engar vísbendingar um kvikuinnskot í þessari hrinu en sérfræðingar Veðurstofunnar munu halda áfram að mæla gasútstreymi á svæðinu, en ummerki um kvikugös, ef einhver væru, gætu sést í gasmælingum,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár á Veðurstofu Íslands, við mælingar í Svartsengi. Vilhelm Gunnarsson

Sérfræðingar Veðurstofu Íslands hafa síðustu daga farið um svæði eins og Krýsuvík, Svartsengi og Eldvörp. Í Svartsengi hittum við á þær Melissu Anne Pfeffer, sérfræðing á sviði ösku- og efnadreifingar, og Söru Barsotti, fagstjóra eldfjallavár. Þær voru meðal annars að mæla hvort útstreymi radon-gass hefði aukist sem og hvort hitastig hefði hækkað.

„Við sáum engar breytingar núna með þessum mælingum,“ sagði Melissa Anne Pfeffer, í viðtali í fréttum Stöðvar 2 á miðvikudag, eftir fyrstu stóru skjálftana. Hún sagði að mælingar á radon-gasi væru síðan bornar saman við jarðskjálfta og hreyfingar jarðskorpunnar sem mælast á gps-tækjum.

Melissa Anne Pfeffer og Sara Barsotti eru báðar jarðvísindamenn á Veðurstofu Íslands.Vilhelm Gunnarsson

„Það er erfitt að segja núna hvort þetta er kvika eða ekki. Við þurfum meiri gögn,“ sagði Sara Barsotti í viðtalinu á miðvikudag.

„Það tekur tíma fyrir gas frá kviku til að koma upp. En við sjáum ekkert skrýtið núna hér,“ sagði Melissa.

Hér má sjá vísindamennina að störfum:


Tengdar fréttir

Sviðsmyndirnar vegna skjálftanna margar og misalvarlegar

Jarðeðlisfræðingur segir margar sviðsmyndir í stöðunni þegar horft er á framhaldið. Engar vísbendingar eru um kvikusöfnun en ef af gosi verður býst hann ekki við því að það verði stórt.

Jarðskjálftinn í kvöld sá þriðji öflugasti í hrinunni

Jarðfræðistofnun Bandaríkjanna, USGS, telur jarðskjálftann sem varð á Reykjanesskaga klukkan 22.39 í kvöld hafa verið 4,9 stig að stærð. Veðurstofa Íslands mat skjálftann í fyrstu upp á ýmist 4,3 stig eða 4,7 stig en núna hefur Veðurstofan endurmetið styrk hans og telur hann einnig hafa verið 4,9 stig.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×