Körfubolti

Tveggja metra Dani í KR

Anton Ingi Leifsson skrifar
Darri Freyr tók við stjórnartaumunum hjá karlaliði KR síðasta sumar.
Darri Freyr tók við stjórnartaumunum hjá karlaliði KR síðasta sumar. vísir/vilhelm

Íslandsmeistarar KR í körfubolta hafa bætt við sig hinum tveggja metra háa Zarko Jukic.

Zarko er 27 ára gamall framherji sem á að hjálpa KR-ingum í baráttunni sem framundan er en hann kemur frá Danmörku.

Hann hefur lengst af leikið í heimalandinu en einnig hefur hann spilað á Spáni, Englandi og í Svíþjóð.

„Zarko er mikill íþróttamaður sem getur brugðið sér í ólík hlutverk. Hann mun leysa stöður mið- og framherja hjá okkur og gerum við ráð fyrir að hann hjálpi liðinu töluvert í frákastabaráttunni,“ sagði Darri Freyr Atlason, þjálfari KR í samtali við heimasíðu KR.

„Á síðastliðnu tímabili var Zarko fimmti frákastahæsti leikmaður dönsku deildarinnar og sá frákastahæsti sem var ekki með amerískt ríkisfang.“

„Zarko er fjölhæfur varnarmaður sem getur nýtt hæð sína og hreyfanleika í að dekka flestar stöður á vellinum. Hann er frábrugðin þeim leikmönnum sem að við höfum hér fyrir og mun vonandi styrkja liðið töluvert í komandi átökum.“

KR er með sex sigra í fyrstu tíu leikjunum í Domino's deildinni þetta tímabilið. Þeir eru í fjórða sætinu en næsti leikur liðsins er á sunnudaginn eftir rúma viku er liðið mætir ÍR í fyrsta leiknum eftir landsleikjahléið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.