Innlent

Þriðjungur gripið til aðgerða til að verja heimili sín fyrir afbrotum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar

Um þriðjungur landsmanna hefur gripið til einhverra aðgerða til að verja heimili sitt fyrir afbrotum, samkvæmt nýrri skýrslu ríkislögreglustjóra. Afbrotafræðingur telur að morðið í Rauðagerði muni hafa áhrif á fólk og jafnvel vekja sérstakan ótta hjá sumum.

Samkvæmt skýrslunni gerðu flestir samkomulag við nágranna um að vakta hús hvors annars, eða 31 prósent svarenda, næst flestir settu upp öryggis- eða þjófavarnakerfi eða 21,5 prósent og 12,4 prósent settu upp sérstaka hurðarlása. 37,2 prósent höfðu þegar gripið til aðgerða.

„Þetta eru frekar háar tölur og sérstaklega í ljósi þess að afbrot hafa verið fátíð á Íslandi,“ segir Margrét Valdimarsdóttir, doktor í afbrotafræði. „Alþjóðlegar rannsóknir sýna að það eru ekkert endilega tengsl á milli raunverulegrar tíðni afbrota og ótta við afbrot. Ótti við afbrot tengist öðrum þáttum,“ bætir hún við.

Fólk óttast það sem það þekkir ekki

Þá sögðust um 53 prósent hafa einhvern tímann haft áhyggjur af því að verða fyrir afbroti, og flestir nefndu innbrot í því samhengi.

„Rannsóknir sýna að fólk óttast það sem það þekkir ekki. Til dæmis er áhugavert að segja frá því að í öðrum ríkjum, þar sem margir innflytjendur búa, þar er fólk miklu hræddara við afbrot heldur en í öðrum hverfum, þar sem afbrot eru miklu fleiri en fólk hefur sama uppruna.“

Umfjöllun um afbrot auki á áhyggjur fólks.

„Ég held að morðið í Rauðagerði komi til með að hafa mikil áhrif. Við höfum ekki heyrt af svona máli áður. Að minnsta kosti man ég ekki til þess, þetta er bara aftaka eins og þessu hefur verið lýst í fjölmiðlum,“ segir Margrét.

Umræða um að hópurinn tengist skipulagðri brotastarfsemi hræði líka fólk, því það sé falinn veruleiki fyrir flestum. „Hópurinn hefur tengsl við útlönd og þetta eru allt þættir sem munu vekja sérstakan ótta hjá okkur. Þó hefur komið fram í umfjöllun frá lögreglu að þetta atvik tengist uppgjöri í undirheimunum og það gæti verið til þess að draga úr óttanum. Það er kannski leið lögreglu til þess að draga úr almennum ótta.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.