Handbolti

Elín fór á kostum en enginn Aron í Meistara­deildar­sigri Barcelona

Anton Ingi Leifsson skrifar
Elín Jóna Þorsteinsdóttir með þjálfaranum Kent Ballegaard.
Elín Jóna Þorsteinsdóttir með þjálfaranum Kent Ballegaard. mynd/vendsyssel

Elín Jóna Þorsteinsdóttir fór á kostum í marki Vendsyssel í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld en það dugði ekki til gegn Randers. Vendsyssel tapaði 22-20.

Elín Jóna varði 21 af þeim 39 skotum sem hún fékk á sig eða var með tæplega 54% markvörslu. Stenunn Hansdóttir skoraði þrjú mörk úr fjórum skotum fyrir Vendsyssel sem er á botni deildarinnar.

Ágúst Elí Björgvinsson náði sér ekki á strik í marki Kolding sem tapaði með tíu marka mun, 34-24, fyrir Bjerrinbro-Silkeborg í danska boltanum. Ágúst varði þrjá bolta ef þeim þrettán sem hann fékk á sig en Kolding er í áttunda sæti deildarinnar.

Aron Pálmarsson var ekki í leikmannahópi Barcelona sem hafði betur gegn Nantes í Meistaradeildinni, 39-29, eftir að hafa verið 17-14 undir í hálfleik. Börsungar þar af leiðandi með fullt hús stiga í B-riðlinum; tólf sigra í tólf leikjum.

Gummersbach tapaði nokkuð óvænt, 28-29, fyrir Grosswallstadt í þýsku B-deildinni í handbolta. Gummersbach er í öðru sæti deildarinnar en Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari liðsins. Elliði Snær Viðarsson skoraði eitt mark.

Sveinbjörn Pétursson og Arnar Birkir Hálfdánarson spiluðu í fimm marka sigri Aue, 25-20, á Wilhelmshavener í sömu deild. Arnar Birkir skoraði fjögur mörk en Aue er í níunda sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×