Körfubolti

Framtíðin í ó(wis)su

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ekki liggur fyrir hvort Eric Wise verður áfram hjá Grindavík.
Ekki liggur fyrir hvort Eric Wise verður áfram hjá Grindavík. vísir/hulda margrét

Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur, vildi lítið segja um framtíð Bandaríkjamannsins Erics Wise hjá liðinu í samtali við Vísi.

Wise hefur ekki vakið stormandi lukku með frammistöðu sinni með Grindavík það sem af er tímabili. Hann er með 13,3 stig og 6,4 fráköst að meðaltali í leik í Domino's deildinni.

Wise og framtíð hans var til umræðu í Domino's Körfuboltakvöldi í gær. Þeir Sævar Sævarsson og Teitur Örlygsson voru sammála um að framlag hans til Grindavíkurliðsins væri ekki nógu mikið og það þyrfti annan bandarískan leikmann.

Aðspurður í samtali við Vísi hvort Wise væri á heimleið sagði Daníel, þjálfari Grindavíkur, að það ætti eftir að koma í ljós.

„Það er ekkert búið að ræða við hann,“ sagði Daníel um Dag.

En gerir hann ráð fyrir að Wise spili næsta leik Grindavíkur sem er gegn Tindastóli annað kvöld?

„Já, eins og staðan er núna. Það er ekkert búið að gera í þeim efnum,“ sagði Daníel sem vildi ekki tjá sig um hvort Grindvíkingar hafi rætt um að skipta Wise út.

Dagur Kár Jónsson hefur misst af síðustu leikjum Grindavíkur eftir að hann meiddist gegn Njarðvík 28. janúar.

„Við ætlum að nota landsleikjahléið til að sjá hvernig staðan verður á honum,“ sagði Daníel.

Grindavík hefur fengið ástralska bakvörðinn Marshall Nelson til sín. Ef allt gengur að óskum losnar Nelson úr sóttkví á morgun. 

„Hann fer í próf á morgun og við verðum að sjá hvað kemur út úr því,“ sagði Daníel en sem fyrr sagði mætir Grindavík Tindastóli annað kvöld. „Hann lenti nokkrum klukkutímum of seint, annars hefði hann örugglega getað byrjað að æfa í dag.“

Grindavík hefur tapað tveimur leikjum í röð og er í 6. sæti Domino's deildarinnar.


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×