Körfubolti

Durant lét for­ráða­menn NBA-deildarinnar heyra það

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Durant vel pirraður á hliðarlínunni í leiknum gegn Toronto í nótt.
Durant vel pirraður á hliðarlínunni í leiknum gegn Toronto í nótt. Elsa/Getty Images

Kevin Durant, leikmaður Brooklyn Nets, lét forráðamenn NBA-deildarinnar í körfubolta fá það óþvegið á samfélagsmiðlum eftir leik liðsins gegn Toronto Raptors í nótt.

Ástæðan fyrir pirring Durant var ekki eingöngu að liðið hefði tapað mikilvægum leik heldur regluverk deildarinnar er varðar heilsu og öryggi leikmanna. Durant, sem greindist með Covid-19 á síðasta ári, átti upphaflega að byrja leikinn en var á endanum settur á bekkinn þar sem hann hafði verið í kringum einstakling sem var mögulega smitaður.

Durant fór þrisvar í skimun fyrir leik og fékk alltaf neikvæðar niðurstöður og fékk á endanum að koma inn af bekknum í öðrum leikhluta. Þetta var í fyrsta skipti sem leikmaðurinn byrjar á bekknum í NBA-deildinni.

Hann var síðan tekinn af velli í þriðja leikhluta þar sem einstaklingurinn sem hann hafi umgengist reyndist smitaður. Því var hann tekinn af velli samkvæmt reglugerð deildarinnar.

„Ruglandi og pirrandi. Ég meina, þetta er stórskrítið,“ sagði Joe Harris – liðsfélagi Durant – í viðtali eftir leik. Jeff Green, annar liðsfélagi, tók í sama streng.

„Ég skil þetta ekki. Þetta er augljóslega mjög pirrandi. Ég meina, þeir leyfðu honum að spila og svo taka þeir hann út af. Ég næ þessu ekki.“

Durant sjálfur tjáði sig á Twitter.

„Frelsið mig,“ var fyrsta tístið sem hann sendi frá sér.

„Yo NBA, áhorfendurnir ykkar eru ekki heimskir!!!! Þú getur ekki platað þá með þessari undarlegu fjölmiðlafulltrúa taktík.“

Í frétt NBA segir að Brooklyn Nets hafi fengið grænt ljós á að ferðast til Philadelphia þar sem liðið mun spila við 76ers en Durant hafi ekki ferðast með liðinu. Hvort hann megi ferðast einn síns liðs og taka þátt í leiknum kemur ekki fram.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×