Körfubolti

„Hefur örugg­lega setið í leik­mönnum sem hafa verið hérna lengi og mér sömu­leiðis“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Daníel Guðni messar yfir sínum mönnum
Daníel Guðni messar yfir sínum mönnum vísir/daníel

Daníel Guðni Guðmundsson þjálfari Grindavíkur var auðvitað mjög sáttur með sitt lið í kvöld en Grindvíkingar lönduðu sigri gegn Stjörnunni á heimavelli í HS-Orku höllinni.

„Við voru þægilega inni í leiknum allan fyrri hálfleikinn en þeir enda hann á að skora þrist og komast yfir fyrir hálfleikinn. Við ræðum saman í hálfleik, yfirvegað og á rólegu nótunum, um að gera hlutina bara almennilega,“ sagði Daníel Guðni í samtali við Vísi eftir leik.

Grindvíkingar leiddu með 8 stigum eftir fyrsta leikhluta en Stjörnumenn sóttu á og komust yfir með síðasta skoti fyrri hálfleiksins.

„Við vildum sækja betur á þá inn í teig, við vorum að flýta okkur of mikið því við vildum halda þessu þokkalega hægu og á okkar tempói. Við vorum að gera varnarmistök með samskiptaleysi en það ætti að vera auðvelt að laga það því við erum allir með munn og eyru og getum talað saman. Það gekk betur í seinni hálfleik.“

Grindavík og Stjarnan hafa ýmsar baráttur háð síðustu tímabilin og það er alltaf hasar og læti þegar þau mætast.

„Það er alltaf þessi rígur á milli þessara liða og það hefur örugglega setið í leikmönnum sem hafa verið hérna lengi og mér sömuleiðis. Mér finnst mjög gaman að vinna leiki og sérstaklega Stjörnuna þegar maður er hér í Grindavík. Það eru ýmsar sögur í gegnum tíðina eftir leiki í úrslitum.“

Grindvíkingar mættu með hálf vængbrotið lið til leiks í kvöld en Dagur Kár Jónsson er frá vegna meiðsla og Eric Wise á við meiðsli að stríða í baki.

„Mér fannst Eric ná að klára þetta ágætlega hér í kvöld, skoraði einhver 12-14 stig og ná nokkrum góðum fráköstum í endann. Það er bara vel og svo þurfum við að sjá hvenær Dagur kemur inn í þetta aftur og taka stöðuna þá,“ en Daníel átti von á því að Grindvíkingar fengju nánari upplýsingar um meiðsli Dags Kár á morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×