Erlent

Tveir Norðmenn fórust í snjóflóði á Jan Mayen

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá bækistöð norska hersins á Jan Mayen.
Frá bækistöð norska hersins á Jan Mayen. Torbjørn Kjosvold/Forsvaret

Tveir starfsmenn við norsku herstöðina á Jan Mayen, karl og kona, fórust í snjóflóði skammt frá stöðinni um tvöleytið í gær, laugardag. Einn maður komst lífs af úr flóðinu, lítið slasaður, og tókst honum að komast til baka og láta vita af slysinu.

Þremenningarnir höfðu farið í gönguferð í eigin frítíma þegar snjóflóðið féll. Starfsfólk frá stöðinni hóf björgunaraðgerð um leið og fréttist af slysinu. Eftir skamma leit í gegnum snjóflóðið fundust þau sem saknað var en lífgunartilraunir á staðnum báru ekki árangur. Voru þau úrskurðuð látin um klukkan 19 í gærkvöldi, að því er fram kemur í tilkynningu norska hersins.

Hin látnu voru borgaralegir starfsmenn við herstöðina, Robin Karlsen, 31 árs gamall verkfræðingur, og Bjørg Kathrine Batalden, 57 ára gamall hjúkrunarfræðingur, bæði Norðmenn. Þau voru í hópi átján manna starfsliðs norska hersins á eyjunni.

Eldfjallið Beerenberg er 2.277 metra hátt og langhæsti hluti Jan Mayen.Arterra/Getty Images

Jan Mayen er um 550 kílómetra norðaustur af Íslandi. Eyjan er um 380 ferkílómetrar að flatarmáli og teygir sig frá suðvestri til norðausturs. Hún er 54 kílómetra löng en breidd hennar er mest um 16 kílómetrar.

Langhæsti hluti hennar er eldfjallið Beerenberg, 2.277 metra hátt. Það gaus síðast árið 1985 og þar áður 1973 og 1970. Nafn sitt dregur hún af hollenskum hvalveiðiskipstjóra sem þangað kom árið 1614 en Norðmenn eignuðu sér eyjuna árið 1930.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×