Erlent

Gráíkornaplága í Bretlandi: Stjórnvöld vilja gefa þeim „pilluna“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Gráíkorninn hefur meðal annars verið sakaður um að hamla aðgerðum breskra stjórnvalda í loftslagsmálum.
Gráíkorninn hefur meðal annars verið sakaður um að hamla aðgerðum breskra stjórnvalda í loftslagsmálum. Unsplash/Daniel Olaleye

Bresk stjórnvöld hafa lagt blessun sína yfir hugmyndir um að beita getnaðarvörnum til að hefta vöxt gráíkornastofnsins í landinu. Umhverfisráðherrann segir íkornategundina og aðrar aðfluttar tegundir árlega valda 1,8 milljarð punda tjóni á skóglendinu.

Ætlunin er að lokka íkornana inn í lítil matarbox sem aðeins þeir komast í. Þar munu þeir finna litlar skálar fullar af girnilegum smurningi úr heslihnetum. 

Smjörið mun innihalda getnaðarvörn.

Hugmyndin kemur frá UK Squirrel Accord (UKSA), samstarfsvettvangi umhverfis- og skógræktarfélaga.

Gráíkornin barst fyrst til Bretlands frá Bandaríkjunum seint á 19. öld en samkvæmt UKSA veldur hann gríðarlegum skaða með því að rífa börkin af tíu til fimmtíu ára gömlum trjám. Íkornategundin er einna hrifnust af eikum, sem þykir afar óheppilegt þar sem eikur skapa skilyrði fyrir önnur tré að dafna.

Áætlað er að um þrjár milljónir gráíkorna sé að finna í Bretlandi en þeir hafa drifið hinn innfædda rauðíkorna á brott og er hann nú helst að finna í Skotlandi og á Írlandi.

Umhverfisráðherrann breski, Goldsmith lávarður, segir stjórnvöld styðja fyrrnefndar hugmyndir og einnig það langtímamarkmið að rækta ófrjósemi hjá tegundinni.

Talið er að getnaðarvarnaaðgerðin geti fækkað íkornunum um allt að 90 prósent en sama hlutfall heimsótti matarbox í tilraunum á síðasta ári.

Þess má geta að fyrirætlanirnar njóta einnig konunglegs stuðnings en Karl Bretaprins átti stóran þátt í stofnun UKSA og hefur verið ötull talsmaður rauðíkornans.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá BBC.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×