Innlent

Hitafundur í Kópavogi - Gunnar og Guðríður sammála

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kópavogur.
Kópavogur.
Meirihlutinn í bæjarstjórn Kópavogs klofnaði þegar verið var að taka afstöðu til tillögu Aðalsteins Jónssonar bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um tímatöflur íþróttafélaganna í gær. Heimildir Vísis herma að mikill hiti hafi verið á fundinum vegna málsins.

Tillaga Aðalsteins var samþykkt með sjö atkvæðum gegn fjórum. Það sem vekur athygli er að Gunnar Birgisson var eini fulltrúinn úr meirihlutanum sem studdi tillögu Aðalsteins. Það var því fyrir tilstuðlan minnihlutans auk Aðalsteins og Gunnars sem tillagan var samþykkt. Aðalsteinn Jónsson segir að þessi ágreiningur við félaga sína í meirihlutanum hafi ekki verið heppilegur. „Ég er alinn upp í íþróttum og ég veit að ef liðið vinnur ekki saman þá nær maður ekki árangri," segir hann. Hann hafi hins vegar þurft að láta hjartað ráða í þessu máli.

Ómar Stefánsson bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins telur ágreininginn hins vegar ekki hafa verið alvarlegan og beri frekar vott um sterkan meirihluta. „Þetta er gott meirihlutasamstarf, það er opið," segir Ómar. Það hafi verið hjartnæmt að sjá Guðríði Arnardóttur og Gunnar Birgisson sammála í bæjarstjórn. „Maður nánast táraðist þegar maður heyrði Guðríði lýsa því yfir hvað hún væri ánægð með þessa tillögu Gunnars," segir Ómar Stefánsson.

Meirihlutasamstarf er með Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Y-Lista Kópavogsbúa. Samfylkingin, VG og Næst besti flokkurinn eiga svo fulltrúa í minnihluta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×