Skoðun

Tryggjum frjálsa sölu lausa­sölu­lyfja

Vilhjálmur Árnason skrifar

Höfuðmarkmið frumvarp heilbrigðisráðherra til lyfjalaga , sem nú er í meðförum þingsins, er að tryggja öryggi sjúklinga, ekki síst afhendingaröryggi. Nægilegt framboð sé til staðar af nauðsynlegum lyfjum og dreifing lyfja á grundvelli eðlilegrar samkeppni sé sem hagkvæmust. Endurskoðun lyfjalaganna er löngu tímabær og takist vel til má gera ráð fyrir að ný lyfjalög verði sett til langs tíma. Gæði og öryggi lyfja og þjónustunnar með þau skiptir miklu máli, sömuleiðis aukin fræðsla, forvarnir og að lyfjakostnaði sé haldið í lágmarki. Þrátt fyrir umræðu um háan lyfjakostnað, þá er vert að athuga að heildarmyndin breytist jafnan ekki milli ára því eldri lyf lækka í kostnaði, ekki síst vegna samheitalyfja. Lyfjakostnaður sem hluti af útgjöldum er fasti, eða rétt rúm 8% af heildarútgjöldum í ár.

Að mínu mati er bráðnauðsynlegt að gera breytingar á frumvarpi til lyfjalaga sem heimilar frjálsa sölu lausasölulyfja og ekki er gert ráð fyrir í þeim frumvarpsdrögum sem Velferðarnefnd hefur til meðferðar. Hagstæðasta lyfjaverðið verður aðeins tryggt með samkeppni og í því skyni mætti með tiltölulega einföldum hætti breyta lyfjalögum á þann veg að Lyfjastofnun fái heimild til að veita almennum verslunum undanþágu til að selja lausasölulyf og bæta þar með þjónustuna við almenning, ekki síst í hinum dreifðari byggðum þar sem víða er langt á milli lyfjabúða og opnunartími þeirra takmarkaður. Það er auðvitað fráleitt að fólk geti ekki nálgast slík lyf, sem notuð eru hversdagslegum tilgangi og hægt er að kaupa án lyfseðils, nema að apótek sé í grennd. Það er mikið hagsmunamál og spurning um lífsgæði fólks um land allt að aðgengi að lausasölulyfjum sé greitt.

Það er bjargföst trú mín að þessi breyting á lögunum sem nú eru til umfjöllunar auki bæði samkeppni og lækki verð til neytenda. Um leið eykst framboð lausasölulyfja um land allt sem bætir þjónustuna og eykur lífsgæði borgaranna og öryggi.

Því spyr ég, er eftir einhverju að bíða?

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×