Innlent

Talsvert skortir á rannsóknir á klámi hér á landi

Frá fundinum
Frá fundinum mynd/innanríkisráðuneytið
Um fimmtíu manns mættu til samráðsfundar um klám á Íslandi sem innanríkisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og velferðarráðuneyti efndu til síðastliðinn mánudag. Á fundinum var fjallað um klám út frá lagalegu, heilbrigðislegu og samfélagslegu sjónarhorni en til hans var boðið fulltrúum frá stofnunum, grasrótarsamtökum, þingflokkum og fræðasamfélagi, að því er segir á vef innanríkisráðuneytisins.

„Katrín Anna Guðmundsdóttir kynjafræðingur hélt stutt erindi um klám og muninn á því og annars konar kynferðislegu efni. Í framhaldinu tókust fjórir hópar á við umræðuefnið út frá ólíkum sjónarhornum.

Róbert R. Spanó, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, leiddi hóp sem fjallaði um löggjöf um bann við klámi og framkvæmd hennar. Þar kom meðal annars fram að brot gegn banni við klámi væru ekki í forgangi í réttarvörslukerfinu. Var því varpað fram hvort breyta þyrfti gildandi efsiákvæðum um klám og þá hvaða vandamál væru uppi við rannsókn slíkra mála. Þá var einnig rætt um samspil refsiábyrgðar á þessu sviði og tjáningarfrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar.

Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, fór fyrir hópi sem fjallaði um klám í almannarýminu en í umræðum þess hóps var fjallað um þá mynd sem klám gefur af samskiptum kynjanna og hvaða áhrif óheft aðgengi að klámefni hefur á samfélagið.

Undir leiðsögn Katrínar Önnu Guðmundsdóttur kynjafræðings var fjallað um klám og samfélagslega ábyrgð og leitast við að kortleggja ábyrgð framleiðenda annars vegar og neytenda kláms hins vegar. Þar var meðal annars bent á að auka verði fræðslu og forvarnarstarf í málaflokknum ásamt því að gera nauðsynlegar úrbætur í réttarkerfinu.

Loks leiddi Þórarinn Viðar Hjaltason sálfræðingur hóp sem fjallaði um sálræn áhrif kláms. Þar var því velt upp hvort klámnotkun geti í sumum tilfellum þróast út í einhvers konar fíkn þar sem „neytandinn" þurfi sífellt grófara og harðara efni. Talsvert skortir á rannsóknir á klámi hér á landi og eins á þeim áhrifum sem klám hefur á einstaklinga sem það sjá.

Markmiðið með samráðinu er að efna til umræðu um hvert hlutverk stjórnvalda eigi að vera þegar kemur að klámi með tilliti til dreifingar, notkunar og einstaklingsbundinna og samfélagslegra áhrifa.

Þriðjudaginn 16. október næstkomandi verður haldin opin ráðstefna um klám í samvinnu við lagadeild Háskóla Íslands en ráðstefnan mun standa frá 13-17 og verður nánar kynnt á næstu dögum.,“ segir á vef ráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×