Erlent

Sjö Íslendingar á svæðinu

"Við sáum rauð-appelsínugulan eldgíg á himninum og um fjórum sekúndum síðar fundum við mikinn þrýsting og heyrðum háværa sprengingu," segir Jóna Þorvaldsdóttir, sem ásamt sex öðrum Íslendingum, tveimur fjölskyldum, er stödd á ferðamannastaðnum Sharm-el Sheik í Egyptalandi, þar sem sprengjuárásin var gerð á aðfararnótt laugardags. Engan Íslendinganna sakaði. "Við sátum á svölunum á hótelinu þegar við urðum vör við mikla sprengingu, svo allt nötraði hjá okkur," segir Jóna. "Þegar önnur sprengingin varð fór ekki á milli mála hvað var um að ræða," segir hún. Jóna segist hafa orðið virkilega óttaslegin fyrst í stað, ekki síst vegna tilhugsunarinnar um að kvöldið áður hafi hún, ásamt fjölskyldu sinni, verið stödd í næsta nágrenni sprengjustaðarins, þar sem þau hafi snætt kvöldverð á veitingastað og kíkt í búðir í verslunarmiðstöð sem nú er rústir einar. "Við keyrðum fram hjá staðnum þar sem sprengingin varð, aðeins tveimur klukkustundum áður en sprengjan sprakk," segir Jóna. Fjölskyldurnar tvær ætla að halda kyrru fyrir í Egyptalandi um sinn, enda er að sögn Jónu mikil örtröð á flugvellinum. "Okkur finnst við örugg hér enda mikil gæsla í gangi. Við höfum hins vegar afráðið að fara ekki í ferðir til Lúxor og Kaíró, sem við höfðum áætlað, enda er ferðamönnum ráðlagt að halda kyrru fyrir," segir Jóna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×