Körfubolti

„Stórt félag með mikla sögu og tækifæri til að gera betur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Finnur Freyr skrifaði undir tveggja ára samning við Val í dag.
Finnur Freyr skrifaði undir tveggja ára samning við Val í dag. vísir/vilhelm

Finnur Freyr Stefánsson var ráðinn þjálfari karlaliðs Vals í körfubolta í dag. Mörg lið sóttust eftir starfskröftum hans.

„Ég var í viðræðum við nokkur lið sem settu saman flottan pakka og það er greinilega mikill metnaður í íslenskum körfubolta. Ég er bara fyrst og fremst þakklátur fyrir að fá vinnu. Það er ekkert sjálfsagt,“ sagði Finnur í Sportinu í dag.

Finnur þjálfaði yngri flokka Vals tímabilið 2018-19 og þekkir því ágætlega til á Hlíðarenda.

„Mér leið vel þarna. Það er vel staðið að hlutunum og gott fólk þarna. Þetta er stórt félag með mikla sögu og tækifæri til að gera betur. Ég á að hjálpa félaginu að taka næsta skref,“ sagði Finnur sem gerði KR að Íslandsmeisturum öll fimm tímabilin sem þjálfari karlaliðsins. Verkefnið hjá Val er talsvert frábrugðið því sem hann glímdi við hjá KR.

„Þetta eru ólík verkefni. Þegar ég tók við KR var stærsta málið að vinna tvö ár í röð. Nú tek ég við liði sem er að reyna að festa sig í sessi í deildinni og hefur ekki komist í úrslitakeppnina í langan tíma.“

Finnur segir að blandan í Valsliðinu á síðasta tímabili hafi ekki verið nógu góð.

„Fyrsta skrefið er að setja saman lið sem getur gert eitthvað. Manni fannst væntingarnar svolítið óraunhæfar þegar Pavel [Ermolinskij] kom í fyrra. Mér fannst liðið illa samsett og það var ekkert samasemmerki milli þess sem fólk var að tala um og gera,“ sagði Finnur. Hann stefnir á að koma Val í úrslitakeppnina.

„Markmiðið er klárlega að taka næsta skref og komast í úrslitakeppnina. Deildin er gríðarlega sterk og mörg lið mun betri en þegar ég var að þjálfa. Svo eru þjálfararnir miklu betri.“

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir

Finnur Freyr tekur við Val

Fimmfaldi Íslandsmeistarinn Finnur Freyr Stefánsson verður næsti þjálfari karlaliðs Vals í körfubolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×