Körfubolti

Nýir þjálfarar hjá báðum Valsliðunum: Finnur tekur við karlaliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Jónas og Finnur Freyr ásamt Svala Björgvinssyni, formanni körfuknattleiksdeildar Vals.
Ólafur Jónas og Finnur Freyr ásamt Svala Björgvinssyni, formanni körfuknattleiksdeildar Vals. vísir/vilhelm

Valsmenn kynntu í dag nýja þjálfara hjá báðum körfuboltaliðum sínum því Finnur Freyr Stefánsson tekur við karlaliði Vals og Ólafur Jónas Sigurðsson mun þjálfa konurnar. Þeir skrifuðu undir tveggja ára samninga í hádeginu í Origohöllinni að Hlíðarenda.

Finnur Freyr Stefánsson þjálfaði síðast meistaraflokkslið á Íslandi þegar hann vann fimm Íslandsmeistaratitla í röð sem þjálfari KR frá 2013-2018. Áður en Finnur fór út til Danmerkur til að taka við liði Horsens þá þjálfaði Finnur yngri flokka hjá Val. Hann þekkir því til á Hlíðarenda.

Þetta eru mikil tímamót hjá Valsmönnum því Ágúst Björgvinsson hættir nú sem þjálfari karlaliðsins eftir níu ára starf. Ágúst verður samt áfram hjá Val því hann hefur tekið við starfi yfirþjálfara yngri flokka Vals.

Darri Freyr Atlason hefur þjálfað kvennalið Vals undanfarin þrjú þrjú tímabil en hann tók þá ákvörðun um að halda ekki áfram með liðið. Valsliðið varð Íslands-, deildar- og bikarmeistari undir hans stjórn í fyrra og var orðið deildarmeistari þegar mótið var flautað af í ár.

Eftirmaður hans er Ólafur Jónas Sigurðsson sem hefur undanfarin þrjú tímabil þjálfað meistaraflokk ÍR í 1. deild kvenna auk þess að þjálfa yngri flokka hjá Breiðholtsfélaginu.

Helena Sverrisdóttir verður aðstoðarþjálfari Ólafs auk þess að spila með Valsliðinu.

Öll fréttatilkynningin frá Val er hér fyrir neðan.

Nýir þjálfarar meistaraflokks kvenna og karla

Yngri flokkarar allir mannaðir

Meistaraflokkur karla

Körfuknattleiksdeild Vals hefur gert samning við Finn Frey Stefánsson um að taka við starfi aðalþjálfara meistaraflokks karla til næstu tveggja ára. Samningur þessa efnis var undirritaður nú í hádeginu í Origohöllinni. Ágúst Björgvinsson, sem þjálfað hefur liðið undanfarin 9 ár, hefur tekið við starfi yfirþjálfara yngri flokka Vals. Finnur Freyr þjálfaði lið Horsens á nýliðnu tímabili og kom liðinu m.a. í bikarúrslitin. Á árunum 2013 til 2018 náði hann þeim einstaka árangri með KR að undir hans stjórn vann liðið fimm Íslandsmeistaratitla í röð auk tveggja bikarmeistaratitla. Finnur Freyr hefur einnig komið að þjálfun landsliða og er hann aðstoðarþjálfari A landsliðs karla auk þess sem hann er yfirþjálfari yngri landsliða Íslands. Finnur er ekki alveg ókunnugur Hlíðarenda því hann þjálfaði yngri flokka hjá félaginu 2018 til 2019.

Meistaraflokkur kvenna

Körfuknattleiksdeild Vals hefur einnig gert samning við Ólaf Jónas Sigurðarson um að taka við starfi aðalþjálfara meistaraflokks kvenna til næstu tveggja ára. Samningur þessa efnis var undirritaður nú hádeginu í Origohöllinni. Helena Sverrisdóttir verður aðstoðarþjálfari Ólafs. Darri Freyr Atlason, sem þjálfað hefur liðið sl. þrjú tímabil, tók ákvörðun um að halda ekki áfram með liðið. KKD Vals þakkar Darra Frey fyrir allt hans framlag en undir hans stjórn varð liðið Íslandsmeistari og bikarmeistari árið 2019 og deildarmeistari 2019 og 2020. Ólafur Jónas hefur undanfarin þrjú tímabil þjálfað meistaraflokk ÍR í 1. deild kvenna auk þess að þjálfa yngri flokka hjá félaginu. Hann hefur náð eftirtektarverðum árangri með lið ÍR. Hann er auk þess aðstoðarþjálfari U20 landsliðs kvenna. Ólafur Jónas er kennari að mennt auk þess sem hann er íþróttafræðingur og einkaþjálfari með áherslu á næringarfræði.

Yngri flokkar

Valur hefur undanfarin ár verið að byggja upp körfuboltann innan félagsins. Iðkendum hefur fjölgað jafnt og þétt sl. misseri og í dag eru virkir körfuboltaiðkendur yfir 300 í félaginu. Ágúst Björgvinsson hefur lagt mikið af mörkum til Vals og sem yfirþjálfari yngri flokka leiðir hann áframhaldandi uppbyggingu þeirra. Á þeim tímum sem við nú lifum er gríðarlega mikilvægt að halda úti öflugu skipulögðu íþróttastarfi í landinu. Það er okkur í körfuknattleiksdeildinni mikið ánægjuefni að búið er að tryggja öllum flokkum félagsins þjálfara á komandi tímabili. Það er auk þess mikilvægt að hafa öfluga meistaraflokka innan félagsins sem hvatningu fyrir unga iðkendur sem stefna hátt. Við hlökkum til að njóta krafta Finns Freys, Ólafs Jónasar og Ágústs á Hlíðarenda næstu árin og lítum á komu þeirra sem stórt skref til frekari uppbyggingar körfunnar í Val.

Fyrir hönd KKD Vals, Grímur Atlason




Fleiri fréttir

Sjá meira


×