Innlent

Í óleyfi um ókláruð Héðinsfjarðargöng

Þótt nú sé búið að sprengja í gegn eru göngin ekki tilbúin fyrir umferð.
Þótt nú sé búið að sprengja í gegn eru göngin ekki tilbúin fyrir umferð.
Nokkuð hefur borið á því að fólk keyri í óleyfi um Héðinsfjarðargöng, að sögn Valgeirs Bergmanns Magnússonar, verkefnastjóra hjá Háfelli. Það sé hættulegt, því þótt búið sé að sprengja göngin verða þau ekki tilbúin fyrr en næsta haust.

„Við höfum lent í því að fólk hefur verið að smygla sér þarna í gegn þegar við erum á staðnum, en það er meira um það að fólk sé að fara í gegn þegar við erum ekki,“ segir Valgeir. Oft hafi starfsmenn orðið varir við hjólför eða önnur ummerki þegar komið er til vinnu.

Hann segir einstaka sinnum hafa staðið þannig á að fólk hafi fengið að fara í gegnum göngin í fylgd starfsmanna. Það sé hins vegar mjög hættulegt þegar fólk fari um göngin í óleyfi. „Það er ekki komin endanleg styrking á allt þannig að það getur enn hrunið úr loftinu. Þetta er enn þá vinnusvæði.“ Enn á einnig eftir að vinna við vegagerð, fráveituskurði og frágang á vatnsaga.

Auk þess segir hann aðstæður í Héðinsfirði geta verið hættulegar. „Ef það er til dæmis snjósöfnun við Héðinsfjörð og fólk fer út af þá er ekkert símasamband þar.“

Valgeir segir að orðrómur hafi komið upp um að það stæði til að hafa göngin opin milli jóla og nýárs, því þá verði ekki unnið í göngunum. Það sé þó alls ekki rétt. „Það væri enn þá hættulegra, því þarna verður enginn fyrr en eftir áramót.“ Vegagerðin hefur því ákveðið að loka göngunum tryggilega fram til 4. janúar. Ráðstafanir verða þó gerðar til að opna þau í neyðartilfellum fyrir lögreglu, sjúkraflutninga og slökkvilið, ef svo ber undir.

thorunn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×