Innlent

SSR greiðir launin

Pósturinn sér ekki um launagreiðslur til fatlaðra ungmenna sem hjá þeim starfa.
Pósturinn sér ekki um launagreiðslur til fatlaðra ungmenna sem hjá þeim starfa.
Talsmenn Íslandspósts segja að fatlaðir einstaklingar, sem hafi verið í umræðunni undanfarna daga vegna starfa hjá fyrirtækinu, séu þátttakendur í tilraunaverkefni Svæðisskrifstofu fatlaðra, Hins hússins og Íþrótta- og tómstundaráðs. Verkefninu sé ætlað að auka fjölbreytni í sumarvinnu þeirra. Hingað til hafi þessi vinna einskorðast við garðvinnu. Öll laun fólksins séu greidd af Svæðisskrifstofu fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu - ekki þeim fyrirtækjum sem taki þátt í verkefninu.

Í fréttatilkynningu frá Íslandspósti segir að forsvarsmenn Íslandspósts séu stoltir af þátttöku fyrirtækisins og starfsmanna þess í þessu verkefni. Hjá Íslandspósti séu í boði ýmis störf sem geti hentað vel og því taki eldri starfsmenn fyrirtækisins vel á móti þátttakendum verkefnisins, rétt eins og öðru nýju starfsfólki. Þátttakendur verkefnisins hafi staðið sig með stakri prýði og starfsmenn Íslandspósts kunni þeim miklar þakkir fyrir sín störf.

„Íslandspóstur metur störf sinna starfsmanna mjög mikils og er þar engin undanskilinn. Það er fyrirtækinu kappsmál að leggja sitt af mörkum til að tryggja jafnræði með öllum á vinnumarkaði. Það er í anda stefnu fyrirtækisins að tryggja starfsfólki sínu góð laun og vinnuaðstöðu, samhliða því sem viðskiptavinum fyrirtækisins er veitt hröð og góð þjónusta," segir í tilkynningu frá Íslandspósti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×