Innlent

Gæslan kannar neyðarkall sem barst frá sendi í Hornafirði

Atli Ísleifsson skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar. Vísir/Ernir
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út eftir að neyðarkall barst frá sendi á Borgarhafnarfjalli í Hornafirði klukkan rúmlega eitt í dag. Varðskipinu Þór er nú einnig siglt í átt að svæðinu til að kanna málið.

Fulltrúi Landhelgisgæslunnar staðfestir í samtali við Vísi að leit standi nú yfir og málið sé í vinnslu. „Kallið kom inn á þennan sendi og enga aðra. Það hefur ekkert heyrst af sjó. Við höfum haft samband við báta og skip á þessu svæði og þeir hafa ekkert heyrt.“

Hann segir að leit standi yfir á svæðinu og ekki sé vitað um neinar skútur sem hafi farið, hvorki frá Breiðdalsvík, Djúpavogi eða Höfn. „Það heyrðist „May Day, May Day. Við heyrðum það, en það hefur enginn annar heyrt það. Það er verið að kanna málið. Við ætlum ekki að slá þessu sem einhverju plati þar til við vitum meira.“

Uppfært kl 15:21:

Fréttatilkynning frá Landhelgisgæslunni:

„Klukkan 13:17 heyrði stjórnstöð Landhelgisgæslunnar neyðarkall á rás 16 í gegnum sendi við Höfn í Hornafirði. Engar upplýsingar liggja fyrir um hver sendir neyðarkallið en þyrla Landhelgisgæslunnar, björgunarskip  Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, lögregla og varðskipið Þór eru á leið á vettvang til leitar.

Ástæða neyðarkallsins er ekki ljós en einskis er saknað á þessu svæði, hvorki báta né ferðafólks. Verið er að leita í skálum og kanna ferðir skipa á svæðinu og þannig reyna að finna tilurð neyðarkallsins.

Ef einhverjir hafa nánari upplýsingar eru þeir vinsamlegast beðnir um að hafa umsvifalaust samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í síma 545-2100 eða við lögreglu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×