Innlent

Brýtur ekki í bága við stjórnarskrána

Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingar, er formaður fjárlaganefndar.
Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingar, er formaður fjárlaganefndar. Mynd/GVA
Þriðja og síðasta umræða um Icesave frumvarp ríkisstjórnar hófst á Alþingi í dag þegar Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlagalefndar, mælti fyrir framhaldsnefndaráliti meirihluta nefndarinnar. Hann sagði ekkert í frumvarpinu brjóta í bága við stjórnarskrána. Atkvæðagreiðsla mun væntanlega fara fram á miðvikudag.

Fjárlaganefnd Alþingis lauk sinni umfjöllun um frumvarpið fyrir jól. Málið var afgreitt úr nefnd með atkvæðum meirihluta en stjórnarnandstaðan vildi ræða málið áfram.

Þriðja og síðasta umræða hófst rétt fyrir klukkan tvö en þingmenn höfðu þá deilt um hvort að búið að hafi verið að ákveða fyrir jól hvernig umræðunni yrði háttað í þessari viku og þá hvort að þingfundur ætti standa fram á kvöld.

Guðbjartur sagði það mat sérfræðinganna Helga Áss Grétarssonar, Eiríks Tómassonar, Bjargar Thorarensen og Davíðs Þór Björgvinssonar að frumvarpið feli ekki í sér framsal á löggjafarvaldi til annarra ríkja og alþjóðastofnanna þannig að stjórnarskrárbundnu fullveldi sé stefnt í hættu. Lagaheimild til veitingar ríkissábyrgðar sé skýr. Frumvarpið brjóti því ekki í bága við stjórnarskrána.

„Með vísan til þessara gagna sem fylgja málinu telur meirihluti fjárlaganefndar að því sé afdráttarlaust svarað að ekkert í frumvarpinu fari í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar," sagði Guðbjartur.


Tengdar fréttir

Deilt um kvöldfund

Þingmenn deildu við upphaf þingfundar í dag hvort að funda ætti fram á kvöld um Icesave frumvarpið. Þuríður Backman, varaforseti Alþingis, sagði að samkomulag væri um tilhögun þriðju umræðu um Icesave og líklega yrði þingfundur fram á kvöld. Þingmenn stjórnarandstöðunnar sögðu hins vegar að ekkert samkomulag væri um kvöldfund og óskuðu eftir því að fram færi sérstök atkvæðagreiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×